Synjað um aðgang að skýrslu um Magnús Leópoldsson

Leirfinnur á Þjóðminjasafni Íslands.
Leirfinnur á Þjóðminjasafni Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur staðfest ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um að synja beiðni um aðgang að skýrslu um opinbera rannsókn á tildrögum þess að Magnús Leópoldsson var á sínum tíma grunaður um aðild að hvarfi Geirfinns Einarssonar og var látinn sæta gæsluvarðhaldi vegna þess.

Úrskurðurinn er frá 13. desember 2019 og var birtur á vef Stjórnarráðsins í dag.

Ekki kemur fram í úrskurðinum hver óskaði eftir aðgangi að skýrslunni. Bæði dómsmálaráðuneytið og úrskurðarnefnd um upplýsingamál telja skýrsluna vera hluta af rannsókn í sakamáli og þar af leiðandi undanþegna upplýsingalögum.

Skýrslan var unnin fyrir dómsmálaráðherra árið 2003 en rannsóknin sem hún fjallar um hófst árið 2001 þegar dómsmálaráðherra setti Láru V. Júlíusdóttur lögmann sem saksóknara til að rannsaka tildrög þess að Magnús Leópoldsson var á sínum tíma grunaður um aðild að hvarfi Geirfinns Einarssonar í Keflavík og látinn sæta gæsluvarðhaldi vegna þess á fyrri hluta árs 1976.

Rannsóknin hafði þann tilgang að skera úr um hvort opinberir starfsmenn hefðu viðhaft ámælisverð og ólögleg vinnubrögð í tengslum við rannsókn málsins í ljósi ásakana sem fram höfðu komið.

Sólveig Pétursdóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, afhenti Magnúsi skýrsluna árið 2003 og í umfjöllun Morgunblaðsins þá kom fram að í skýrslunni hefði ekkert komið fram sem benti til þess að lögreglumenn hefðu látið leirmyndina af Geirfinni líkjast Magnúsi.

Sá sem óskaði eftir aðgangi að skýrslunni taldi að skýrslan væri ekki rannsókn sem slík heldur skýrsla um rannsóknina og væri því undanþegin ákvæðum upplýsingalaga sem heimila stjórnvaldi að synja beiðni um aðgang að gögnum. Á það var ekki fallist og beiðninni því synjað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert