Nánast öllu flugi aflýst

mbl.is/Eggert

Millilandaflugi um Keflavíkurflugvöll síðdegis hefur verið aflýst vegna slæmrar veðurspár og hefur brottför á flugi Icelandair til Kaupmannahafnar sem var áætluð klukkan 14 verið flýtt um klukkustund. 

Vegna veðurs hefur ákvörðun verið tekin hjá Icelandair að aflýsa öllu flugi til og frá Keflavík eftir hádegi í dag og í fyrramálið. Gert er ráð fyrir að þessar raskanir muni hafa áhrif á yfir 8 þúsund farþega.

Enn hefur flugferðum Norwegian Airlines um Keflavíkurflugvöll ekki verið aflýst en flugferðum allra annarra flugfélaga hefur verið aflýst. Síðasta vélin héðan fer klukkan 13 og síðasta vélin sem er væntanleg til landsins er væntanleg klukkan 12:40.

Flugfélag Íslands hefur aflýst innanlandsflugi fyrir utan flug til og frá Egilsstöðum. Flugfélagið Ernir hefur aflýst öllu innanlandsflugi í dag.

Að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia, hafa flugrekendur tekið þessa ákvörðun eftir að Isavia upplýsti þá um stöðu mála og veðurhorfur. Spáð er mjög vondu veðri í dag og bendir allt til þess að veðrið verði sæmt þangað til á morgun.

Icelandair hefur meðal annars aflýst flugi til og frá landinu í fyrramálið fyrir utan flug frá Seattle sem áætlað er að komi til landsins á sjöunda tímanum í fyrramálið. 

Guðjón segir að landgöngubrýr á Keflavíkurflugvelli verði í notkun eins lengi og veður leyfir en ekki er hægt að nota landgöngubrýr þegar vindhraði fer yfir 26 metra á sekúndu. Hann bendir flugfarþegum á að fylgjast með á vef Isavia en þar setja flugfélögin sjálf inn upplýsingar um stöðu mála. 

Sjá nánar hér 

Búið er að upplýsa alla farþega Icelandair um röskunina og unnið er að endurbókun. Farþegar munu fá senda uppfærða ferðaáætlun í tölvupósti en geta einnig fylgst með „umsjón með bókun“ á heimasíðu Icelandair. Þar eru flugupplýsingar uppfærðar um leið og breytingar liggja fyrir og þar geta farþegar jafnframt uppfært netföng og símanúmer þannig að hægt sé að koma skilaboðum til þeirra hratt og örugglega að því er segir í tilkynningu frá Icelandair. 

Flugi Icelandair sem aflýst verður vegna veðurs

  • Öllu flugi frá Evrópu í dag verður aflýst en um er að ræða 15 flug.
  • Öllum brottförum frá Keflavík til Bandaríkjanna og Kanada seinnipartinn í dag aflýst en um er að ræða 11 brottfarir og þá jafnmargar komur aftur frá Norður Ameríku.
  • Öllu flugi til Evrópu frá Keflavík í fyrramálið verður aflýst en það eru 14 brottfarir.

Icelandair hefur þegar haft samband við farþega vegna endurbókunar. Nokkur hundruð farþegar sem áttu flug frá Íslandi seinnipartinn í dag nýttu sér boð Icelandair um að ferðast degi fyrr en um 700 erlendir farþegar verða áfram hér á Íslandi og mun Icelandair útvega þeim hótelgistingu. Þar að auki er verið að vinna í því að endurbóka tengifarþega sem eru að ferðast á milli Evrópu og Norður Ameríku með öðrum flugfélögum.

Miðað við núverandi veðurspá, er gert ráð fyrir að flug verði á áætlun frá Keflavík seinnipartinn á morgun, miðvikudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert