Snarpur jarðskjálfti í Ölfusi

Jarðskjálftakort Veðurstofu Íslands. Svæðið þar sem skjálftinn varð er stjörnumerkt.
Jarðskjálftakort Veðurstofu Íslands. Svæðið þar sem skjálftinn varð er stjörnumerkt. Kort/Veðurstofa Íslands

Snarpur jarðskjálfti varð á sprungu sem er á milli Hveragerðis og Selfoss fyrir skömmu.

Samkvæmt fyrstu tölum Veðurstofu Íslands var hann af stærðinni 3,7.

Að sögn sérfræðings á Veðurstofu Íslands hafa borist tilkynningar um að hann hafi fundist víða á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu.

Uppfært kl. 13.33:

Fram kemur í tilkynningu að skjálftinn, sem gekk yfir klukkan 13.10, hafi verið 3,9 að stærð á 8 km dýpi. Upptök hans voru um 4,5 kílómetrum suðsuðaustur af Hveragerði.

Nokkrir eftirskjálftar hafa mælst.

Uppfært kl. 13.53:

Að sögn Kristínar Elísu Guðmundsdóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, hafa sjö litlir eftirskjálftar orðið.

Annar skjálfti, 3 að stærð, varð klukkan 11.19 í morgun undir Mýrdalsjökli og fylgdu honum engir eftirskjálftar. Kristín Elísa segir að skjálftar af þessari stærð verði reglulega á þessu svæði.

Skjálftarnir tveir tengjast ekkert innbyrðis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert