Ekkert ferðaveður fram á miðvikudag

Vindaspáin um miðnætti.
Vindaspáin um miðnætti. Kort/Veðurstofa Íslands

Ekkert ferðaveður verður á landinu fram á miðvikudag að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Gular viðvaranir taka gildi um allt land þegar líður á daginn vegna norðaustanstorms.

Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi á norðanverðum Vestfjörðum. Þar hefur snjóað talsvert undanfarið og spáð er NA-hríð fram á miðvikudag. Einna mesti vindurinn og ofankoman í spánum var í nótt og svo aftur á mánudagskvöld fram á þriðjudag.

Fyrir er talsverður snjór í fjöllum sem er lagskiptur eftir mismunandi vindáttir og hitabreytingar að undanförnu. Mörg snjóflóð hafa fallið síðustu vikuna, meðal annars á vegi. Viðbúið er að nýr snjór safnist hratt í fjöll í hríðinni fram undan og snjóflóðahætta getur skapast. Fylgjast þarf með snjóflóðahættu í byggð, en búið er að verja þá íbúðabyggð í þéttbýli þar sem fyrst skapast hætta í svona veðri.

Á Norðurlandi er einnig spáð hríð á mánudag fram á miðvikudag.

Alls hafa borist tilkynningar um 62 snjóflóð síðustu tíu daga og hafa 48 þeirra fallið á Vestfjörðum og tíu á Norðausturlandi. Tvö snjóflóð hafa fallið við Breiðafjörð og eins á Norðvesturlandi.

„Í dag gengur í norðaustanstorm þegar líður á daginn en heldur hægari vindur verður norðaustan- og austanlands. Þurrt en skafrenningur suðvestan til, él og skafrennningur víða annars staðar en samfelld úrkoma austast, slydda á láglendi en snjókoma til fjalla.

Á morgun, þriðjudag, verður vindurinn svipaður áfram en úrkoman færist lengra vestur með Norðurlandinu. Þá ætti að vera orðið nægilega hlýtt til að úrkoma á Austurlandi falli sem rigning, slydda norðaustanlands en snjókoma þar vestur af. Áfram verður úrkomulítið á Suður- og Suðvesturlandi, en skafrenningur,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Vetrarfærð er um mestallt land og víða slæm færð. Ófærð er á Vestfjörðum og beðið með mokstur samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Í dag er spáð hvassri norðaustanátt á NV-verðu landinu með snjókomu en dregur úr vindi og ofankomu annars staðar. Frost 0 til 7 stig.

Vaxandi NA-átt síðdegis, víða 15-25 m/s í kvöld, hvassast S- og V-til. Skafrenningur um allt land og víða él en úrkomulítið SV-til. Hlánar við SA-ströndina en annars hiti um og undir frostmarki.

Heldur hægari á morgun, einkum austan til um kvöldið. Þurrt að kalla um landið SV-vert, rigning austan til, slydda norðaustanlands, en snjókoma á Vestfjörðum og Norðvesturlandi. Hiti 0 til 6 stig, mildast SA-lands, en víða vægt frost NV-til.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:
Norðaustanhvassviðri eða -stormur og snjókoma um landið N-vert, slydda eða rigning A-lands, en annars þurrt að kalla. Hiti nálægt frostmarki, en 1 til 5 stig við S- og A-ströndina.

Á miðvikudag:
Norðaustan 10-18, hvassast NV-til. Snjókoma N-lands, slydda A-lands, en annars úrkomulítið. Vægt frost, en víða frostlaust við ströndina.

Á fimmtudag:
Austlæg eða breytileg átt og víða dálítil úrkoma. Hiti um og undir frostmarki.

Á föstudag:
Vestlæg átt og dálítil él S- og V-til, en úrkomulítið annars. Frost um mestallt land.

Á laugardag:
Norðvestlæg átt með éljum, einkum NA-til. Frost 1 til 9 stig, kaldast inn til landsins.

Á sunnudag:
Útlit fyrir ákveðna sunnanátt með mildu og vætusömu veðri.

Gular viðvarnir taka gildi síðar í dag en á Suðurlandi gildir hún frá klukkan 16 til hádegis á morgun. „NA 18-25 með stöku éljum og skafrenningi, hvassast á Hellisheiði, undir Ingólfsfjalli og Eyjafjöllum. Talsverðar líkur á samgöngutruflunum og ekkert ferðaveður.“

Við Faxaflóa tekur gul viðvörun gildi klukkan 13 og gildir til klukkan 22 annað kvöld. „NA 18-25 með stöku éljum og skafrenningi. Mjög snarpar vindhviður við fjöll, hvassast við Hafnarfjall, á Kjalanesi og á sunnanverðu Snæfellsnesi. Talsverðar líkur á samgöngutruflunum og ekkert ferðaveður.“
Við Breiðafjörð tekur gul viðvörun gildi klukkan 11 og gildir til miðnættis annað kvöld. „NA 20-28 með éljum og skafrenningi. Talsverðar líkur á samgöngutruflunum og ekkert ferðaveður.“
Á Vestfjörðum hefur gul viðvörun verið gildi frá því í gær og gildir til hádegis í dag. „Norðaustan 15-23 m/s með snjókomu og skafrenningi og mjög lélegu skyggni, einkum norðan til. Samgöngutruflanir eru líklegar.“ Önnur viðvörun tekur þar gildi á hádegi og gildir sú til miðnættis á morgun. „NA 20-28 með éljum og skafrenningi og jafnvel snjókomu um tíma norðan til. Miklar líkur á samgöngutruflunum og ekkert ferðaveður.“
Strandir og Norðurland vestra — gul viðvörun frá klukkan 11 til miðnættis á morgun. „NA og síðar N 20-25 með éljum og skafrenningi og jafnvel snjókomu um tíma, fyrst á Ströndum. Miklar líkur á samgöngutruflunum og ekkert ferðaveður.“
Á Norðurlandi eystra tekur gul viðvörun gildi klukkan 3 aðra nótt og gildir til miðnættis á morgun. „Norðan 13-18 m/s og snjókoma. Lélegt skyggni og miklar líkur á samgöngutruflunum.“
Á Austurlandi að Glettingi er gul viðvörun frá miðnætti og gildir hún í sólarhring. „Norðan 13-18 m/s og snjókoma á heiðum, en slydda á láglendi. Lélegt skyggni og miklar líkur á samgöngutruflunum.“
Á Austfjörðum tekur gul viðvörun gildi klukkan 23 í kvöld og gildir til klukkan 20 annað kvöld. „Norðan 10-18 m/s og snjókoma á heiðum, en slydda á láglendi. Lélegt skyggni og miklar líkur á samgöngutruflunum.“
Á Suðausturlandi er gul viðvörun frá klukkan 16 til klukkan 12 á hádegi á morgun. „NA 20-28 með slyddu, einkum austan til. Vindhviður gætu farið yfir 50 m/s. Miklar líkur á samgöngutruflunum og ekkert ferðaveður.“
Á miðhálendinu er gul viðvörun frá klukkan 13:00 og gildir hún til hádegis á morgun. „Norðaustan 20-28 með snjókomu og skafrenningi. Ekkert ferðaveður.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert