Ferðamenn virtu ekki lokanir

Það er ekki að ástæðulausu sem skilti sem þessi eru …
Það er ekki að ástæðulausu sem skilti sem þessi eru sett upp og jafnvel slár en það virðist ekki duga til í sumum tilvikum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á Norðurlandi eystra hafði í nægu að snúast í gærkvöldi og í nótt en meðal annars þurfti að koma þremur bifreiðum með ferðamenn til aðstoðar, þar á meðal fólki sem ekki virti lokanir. Snarvitlaust veður var á þessum slóðum í nótt og allar aðstæður erfiðar við að koma fólki til bjargar. 

Að sögn varðstjóra var haft samband við lögreglu vegna ferðamanna sem höfðu fest sig í skafli í Öxnadal en hringvegurinn var og er lokaður vegna ófærðar og veðurs. Þurftu lögreglumenn að fara og koma fólkinu til bjargar. Eins þurfti að aðstoða ferðamenn sem sátu fastir í Héðinsdal, skammt frá Héðinsfjarðargöngunum á leið til Siglufjarðar. Þriðja bifreiðin sat síðan föst við Bakkasel á Öxnadalsheiðinni. 

Þegar blaðamaður ræddi við varðstjóra skömmu fyrir klukkan sex í morgun var verið að bjarga fólki sem sat fast á Norðausturvegi en ekki lágu fyrir upplýsingar um hvort þar er um ferðamenn að ræða.

Á Norðurlandi eystra hefur gul viðvörun verið í gildi síðan klukkan 20 í gærkvöldi og gildir til miðnættis í kvöld. „Norðaustan, og síðar norðan, 15-23 m/s, hvassast vestan til. Snjókoma og skafrenningur með lélegu skyggni og ekkert ferðaveður. Einnig er vert að nefna að það er nærri stórstreymt og vegna lágs loftþrýstings og áhlaðanda má búast við óvenjuhárri sjávarstöðu á flóði. Einnig getur verið mikil ölduhæð sums staðar við landið.“

Á Ströndum og Norðurlandi vestra er aftur á móti appelsínugul viðvörun í gildi og hefur verið í gildi frá klukkan 14 og rennur ekki út fyrr en á miðnætti. „Norðaustan, og síðar norðan, 18-25, með vindhviðum yfir 40 m/s í vindstrengjum við fjöll. Snjókoma og skafrenningur með lélegu skyggni og ekkert ferðaveður. Hætta á foktjóni. Einnig er vert að nefna að það er nærri stórstreymt og vegna lágs loftþrýstings og áhlaðanda má búast við óvenjuhárri sjávarstöðu á flóði. Einnig getur verið mikil ölduhæð sums staðar við landið.“

mbl.is