Laun hækka um 90 þúsund á tveimur árum

Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins.
Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins. mbl.is/Eggert

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands, fyrir hönd 17 aðildarfélaga sinna, skrifaði í dag undir nýjan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga með fyrirvara um samþykki félagsmanna í atkvæðagreiðslu. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2020 til 30. september 2023, að því er fram kemur í frétt á vefsíðu SGS.

Samkvæmt samningnum hækka laun um 90 þúsund krónur á tímabilinu 1. janúar 2020 til 1. janúar 2022. Þann 1. janúar 2023 hækka laun í samræmi við hækkanir á almennum vinnumarkaði.

Lágmarksorlof allra starfsmanna verða 30 dagar og markviss skref verða stigin til styttingar vinnuvikunnar. Frá 1. janúar 2021 styttist vinnuvikan um samtals 65 mínútur fyrir fólk í fullu starfi.

Vegna þess hversu lengi það hefur dregist að gera kjarasamning fá félagsmenn greidda eingreiðslu, upp á samtals 195.000 kr., miðað við fullt starf tímabilið 1. apríl til 31. desember 2019. Til frádráttar kemur 125.000 kr. innágreiðsla frá því í október 2019.

Persónuuppbót sem greiðist 1. maí ár hvert og nemur 50.450 kr. fyrir fullt starf árið 2020. Desemberuppbót hækkar úr 115.850 kr. árið 2019 í 124.750 kr. árið 2022.

mbl.is