Bænastund í Hafnarfjarðarkirkju klukkan 17

Vegna slyssins við Óseyrarbryggju í Hafnarfirði í gærkvöldi verður samveru- …
Vegna slyssins við Óseyrarbryggju í Hafnarfirði í gærkvöldi verður samveru- og bænastund í Hafnarfjarðarkirkju í dag, 18. janúar, klukkan 17 en kirkjan verður opin frá klukkan 16. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samveru- og bænastund verður haldin í Hafnarfjarðarkirkju í dag vegna slyssins við Hafnarfjarðarhöfn í gærkvöld þegar bíll fór fram af Óseyrarbryggju. Þrír piltar á framhaldsskólaaldri voru í bílnum og eru tveir þeirra alvarlega slasaðir á gjörgæslu en sá þriðji liggur á annarri deild spítalans og er líðan hans eftir atvikum. 

Viðbragðshópur Rauða krossins var virkjaður í gær vegna slyssins og hafa viðbragðsaðilar fundað í morgun. Þá er starfsfólk skólanna sem piltarnir eru nemendur við að undirbúa hvernig tekið verður á móti nemendum eftir helgina. 

„Með bænastundinni getur almenningur og ungir sem eldri komið og spjallað við okkur og svo ætlum við að hafa stund og biðja fyrir piltunum og þeirra fjölskyldum og vinahópnum,“ segir Jón Helgi Þórarinsson, sóknarprestur í Hafnarfjarðarkirkju, í samtali við mbl.is. 

Ásamt honum munu prestar Ástjarnarkirkju, Hafnarfjarðarkirkju, Víðistaðakirkju og Fríkirkjunnar í Hafnarfirði verða á staðnum ásamt áfallateymi Rauða krossins á Íslandi. Kirkjan verður opin frá klukkan 16 og hefst bænastundin klukkan 17. 

„Við viljum líka hvetja foreldra, eins og þeir eru örugglega að gera, að halda utan um unga fólkið sitt, það er kannski það mikilvægasta af öllu. En það er líka gott að geta komið saman eins og við ætlum að gera í dag og sýna samhug,“ segir Jón Helgi.  

Viðbragðshópurinn vill einnig minna á hjálparsíma Rauða krossins 1717, en þangað geta þeir leitað sem þurfa á stuðningi að halda.

Fréttin hefur verið uppfærð. Upphaflega sagði að bænastundin yrði klukkan 16. Hið rétta er að kirkjan verður opin frá klukkan 16 en bænastundin sjálf hefst klukkan 17.  

mbl.is