Flughált víða um land

Flateyrarvegur er opinn en þar er flughált líkt og víða …
Flateyrarvegur er opinn en þar er flughált líkt og víða á landinu. mbl.is/Rax

Búið er að opna Flat­eyr­ar­veg og veg­in­n um Súðavík­ur­hlíð sem var lokað seint í gærkvöld vegna veðurs en app­el­sínu­gul veðurviðvör­un er í gildi á Vest­fjörðum. Vegagerðin bendir þó á að flughált er á Flateyrarvegi.

Þá er óvissustig vegna snjóflóðahættu í gildi á norðanverðum Vestfjörðum. Eftir mikla snjókomu í vikunni hlýnar verulega í dag og búast má við því að snjóflóð geti fallið úr óhlaupnum farvegum vegna hitabreytingarinnar og þegar fer að rigna niður í snjóþekjuna. Ekki er talin hætta á flóðum þar sem snjóflóð féllu fyrr í vikunni. Síðar í dag fer aftur að kólna og þá má gera ráð fyrir að snjór styrkist fljótt. 

Veðurstofan varar sömuleiðis við vatnavöxtum á Suður- og Vesturlandi í dag vegna mikillar úrkomu og leysinga í kjölfarið.  

Flughált er í Ísafjarðardjúpi, Dýrafirði og á Strandavegi, sem og á Innstrandavegi og í Reykhólasveit í Brjánslæk. Þá er þungfært á Kleifaheiði. Flughált og hvassvirði er á Þröskuldum og Mikladal og Gemlufallsheiði og Steingrímsfjarðarheiði eru ófærar vegna flughálku og veðurs. 

Á Suður- og Suðvesturlandi eru vegir greiðfærir að mestu en annars er vetrarfærð í flest öðrum landshlutum. Flughált er á Sólheimavegi og Skálholtsvegi, sem og á Kjósaskarðsvegi, Krýsuvíkurvegi og Grafningsvegi efri. Þungfært er á Fróðárheiði og flughált er í Svínadal og Laxárdalsheiði. 

Flughált er víða á Norðurlandi, til að mynda á Þverárfjallsvegi en þar er einnig mjög hvasst. Flughált er sömuleiðis frá Lóni í Kópasker sem og á Hófaskarði, Hólasandi og í Raufarhöfn. Þá er einnig flughált frá Egilsstöðum að Eiðum. 

Veðurvefur mbl.is

mbl.is