Öllu starfsfólki Bíós Paradísar sagt upp

Framtíð Bíó Paradísar ræðst í dag.
Framtíð Bíó Paradísar ræðst í dag. mbl.is/Golli

Öllu starfsfólki í afgreiðslu Bíó Paradís hefur verið sagt upp störfum og verður öðru starfsfólki kvikmyndahússins sagt upp í lok mars. Stjórn Bíós Paradísar fundar um framtíð þess í dag.

Þetta staðfestir Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri bíósins, í samtali við mbl.is.

Frönsk kvikmyndahátíð stendur yfir í Bíó Paradís um þessar mundir, en Bíó Paradís sýnir nýjar áhugaverðar kvikmyndir frá öllum heimshornum auk hvers kyns eldri mynda, erlendra sem innlendra, hýsir kvikmyndahátíðir og stendur fyrir fjölbreyttum kvikmyndatengdum viðburðum, að því er segir á vefsíðu kvikmyndahússins.

Í viðtali við Morgunblaðið síðastliðið sumar sagði Hrönn að það hefði tekið fólkið á bak við Bíó Paradís nokkur ár að ná tökum á rekstri kvikmyndahússins. Þá komu um 20% af tekjum fyrirtækisins úr opinberum sjóðum. 

Bækistöð íslenskra kvikmyndagerðarmanna

„Fyrir ekki svo löngu hefðu Íslendingar ekki getað gengið að því sem vísu að sigurmyndir kvikmyndahátíðarinnar í Cannes eða Berlín yrðu sýndar í kvikmyndahúsum hér á landi, og eða jafnvel að þær yrðu gerðar fáanlegar á DVD-diski. Bíó Paradís er líka bækistöð íslenskra kvikmyndagerðarmanna og tekur til sýningar myndir sem alla jafna kæmust ekki auðveldlega að annars staðar, s.s. heimildarmyndir, stuttmyndir og sjálfstætt framleiddar listrænar myndir. Þá er eftir að nefna þann fjölda framúrskarandi kvikmynda sem verður til annars staðar en í Hollywood,“ sagði Hrönn í viðtalinu.

Uppfært: Upphaflega var greint frá því að öllu starfsfólki kvikmyndahússins hefði þegar verið sagt upp. Rétt er að öllu starfsfólki í afgreiðslu Bíó Paradís hefur verið sagt upp, en öðru starfsfólki verður sagt upp í lok mars. Starfsfólk í afgreiðslu hefur þriggja mánaða uppsagnarfrest og mun starfsemi kvikmyndahússin haldast óbreytt til 1. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert