Aukin vöktun og erlent samstarf

„Þetta felst í aukinni vöktun, upplýsingagjöf og þesscháttar. Bæði til okkar starfsfólks og til okkar farþega,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, um ráðstafanir fyrirtækisins vegna kóróna-veirunnar. Náið samstarf er við landlækni og erlent heilbrigðisfyrirtæki með sérfræðiþekkingu til að bregðast við stöðunni.  

Veiran sem nú er farin að teygja anga sína út fyrir Asíu hefur haft mikil áhrif á ferðaiðnaðinn á heimsvísu. Flugfélög hafa sum hver hætt alveg að fljúga til Kína þar sem upptök hennar eru og varað er við ferðalögum til Kína. Þá hefur verið gripið til sérstakra ráðstafana á fjölmörgum flugvöllum. Þá er farið að bera á umræðu um algert bann við ferðalögum til og frá Kína. Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Ted Cruz er þar á meðal.  

Bogi segir áhrifin á rekstur Icelandair óveruleg þar sem Kínverjar séu ekki stór hluti af farþegum félagsins. Áhrif á bókanir hafa ekki verið mikil en eitthvað hafi þó hægt á innflæði frá Kína. Um 99 þúsund Kínverjar heimsóttu landið í fyrra.  

mbl.is ræddi við Boga á Icelandair Mid Atlantic-ráðstefnunni í dag þar sem 650 kaupendur og seljendur ferðaþjónustu frá 24 löndum koma saman. Fjölmargir básar eru þar frá aðilum í N-Ameríku og Evrópu. „Eins og staðan er í dag er útlitið ágætt hvað okkur varðar,“ sagði hann spurður um útlitið fyrir sumarvertíðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert