Repúblikanar trúi ekki á sakleysi Trumps

Andófsmenn Trumps utan við þinghúsið í Washington í Bandaríkjunum í …
Andófsmenn Trumps utan við þinghúsið í Washington í Bandaríkjunum í gær með skilti er stóð á „fölsk réttarhöld“. AFP

„Hann vinnur atkvæðagreiðsluna og öldungadeildin mun ekki sakfella hann. En þetta var svo augljós pólitísk kosning að það trúir því enginn að þetta hafi verið réttlát og eðlileg réttarhöld.“

Þetta segir Friðjón R. Friðjónsson, framkvæmdastjóri almanntengslafyrirtækisins KOM og áhugamaður um bandarísk stjórnmál, í samtali við mbl.is um að öldungadeild Bandaríkjaþings hafi hafnað því í gærkvöld að fleiri vitni kæmu fyrir deildina í réttarhöldunum yfir Donald Trump Bandaríkjaforseta. 

Hann segir að þegar vitni séu ekki einu sinni kölluð til trúi því enginn að „málið hafi verið skoðað frá A til Ö“. Aðspurður segir hann að með því að neita að kalla til vitni og skoða málið í raun og veru mengi það niðurstöðuna. „Þetta er enginn raunverulegur sigur. Þetta er þvingað fram með hótunum,“ segir hann og heldur áfram: „Maður trúir því ekki að [repúblikanar] trúi því að Trump sé saklaus. Enda hefur vörn þeirra verið sú að það skipti ekki máli hvort hann sé sekur um það sem hann er sakaður um eða ekki. Það að hann sé forseti gefi honum leyfi til að gera það sem hann er sakaður um.“

Friðjón R. Friðjónsson almannatengill.
Friðjón R. Friðjónsson almannatengill. mbl.is

Orðsporið velti á kosningunum

Spurður hver hann telji munu verða áhrif dómsmálsins á orðspor Trumps segir Friðjón það alfarið ráðast af því hvort Trump nær endurkjöri í haust eða ekki. „Ef hann nær endurkjöri og viðheldur þessum efnahagsuppgangi sem hefur verið í Bandaríkjunum undanfarin misseri þá verða hans eftirmæli og arfleifð: Óhefðbundinn og óvenjulegur forseti, en hann náði þeim markmiðum sínum að gera Bandaríkin ríkari en þau eru.“

Friðjón segir áhrifin sem réttarhöldin munu hafa á orðspor Trumps …
Friðjón segir áhrifin sem réttarhöldin munu hafa á orðspor Trumps ráðast alfarið af því hvort hann nær endurkjöri eða ekki. AFP

Nefnir Friðjón í þessu dæmi auglýsingu Trumps fyrir Ofurskálina annað kvöld, þar sem tónninn sé nokkuð á þá leið að Trump „sé skíthæll“, eins og Friðjón orðar það, en vegna þess að hann haldi efnahagslífinu gangandi, atvinnuleysi lítið o.s.frv. þá sé það bara allt í lagi.

„Ef hann hins vegar tapar núna í haust þá er það allt fyrir bí,“ heldur Friðjón áfram og segir að þá verði atburðirnir, eins og réttarhöldin nú, túlkuð í samræmi við það. „Þannig það hangir ansi mikið á kosningunum [í haust].“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert