HÍ hætti aldursgreiningum á fylgdarlausum börnum

Stúdentaráð ásamt No Borders mótmæla á Háskólatorgi.
Stúdentaráð ásamt No Borders mótmæla á Háskólatorgi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stúdentaráð Háskóla Íslands ásamt No Borders Iceland stóð fyrir mótmælum á Háskólatorgi í hádeginu, en hópurinn mótmælti því að Háskóli Íslands aldursgreindi fylgdarlaus börn og ungmenni á flótta með tanngreiningum.

Fram kemur í tilkynningu að í rúmlega eitt og hálft ár hafi Stúdentaráð og No Borders Iceland andmælt aðkomu Háskóla Íslands að líkamsrannsóknum á fylgdarlausum hælisleitendum og börnum sem hingað koma í leit að betra lífi.

„Afstaða SHÍ hefur hlotið stuðning starfsfólks og doktorsnema við skólann samkvæmt undirskriftarlistum sem voru gerðir opinberir veturinn 2018. Þá hafa Landssamtök íslenskra stúdenta og European Student's Union tekið undir með afstöðu Stúdentaráðs í málinu,“ segir í tilkynningunni. 

Þá segir að þrátt fyrir háværar gagnrýnisraddir hafi Háskóli Íslands samið við Útlendingastofnun, í mars 2019, um framkvæmd aldursgreininga með tanngreiningum sem eru siðferðislega umdeildar og vísindalega ónákvæmar rannsóknir.

„Samningurinn var til eins árs og fer því að líða að endurskoðun á stöðu HÍ í þessu máli. Háskólaráð mun fjalla um málið á fundi sínum í febrúar og efna SHÍ og No Borders til mótmæla gegn því að Háskóli Íslands framkvæmi þessar rannsóknir.

Stúdentaráð skoraði síðast á háskólaráð að hætta aldursgreiningum á fylgdarlausum börnum  30. nóvember 2019.

Áskorunina má finna hér,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert