„Kennitölukrúsidúllur“ ekki í boði

Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra í ræðu sinni á flokksráðsfundi VG í …
Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra í ræðu sinni á flokksráðsfundi VG í félagsheimilinu á Seltjarnarnesi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum ekki stjórnmálahreyfing sem vinnur bara fyrir okkur sjálf,“ sagði Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra í ræðu sinni á flokksráðsfundi VG í félagsheimilinu á Seltjarnarnesi í dag. Eitt af grunngildum flokksins væri félagslegt jafnfrétti og jöfnuður sem flokkurinn ynni ötullega að.

Í þessu samhengi nefndi hún lengingu fæðingarorlofs, fleiri félagslegar lausnir í húsnæðismálum, bæta kjör aldraðra og öryrkja og efla heilbrgðiskerfið.

„Heilbrigðismálin hafa verið mál málanna að undanförnu en þar höfum við staðið vaktina – stóraukið framlög til heilsugæslunnar og aukið þar þjónustu, ekki síst á sviði geðheilbrigðismála, til Landspítalans og heilbrigðisstofnana um land allt og síðast en ekki síst hjúkrunarheimila,“ sagði hún.

Efla þarf aukið gagnsæi í atvinnulífinu

Eitt af því sem Samherjamálið sýndi okkur að þörf er á auknu gagnsæi í atvinnulífinu. Þeim sem fara með rannsókn Samherjamálsins hefur verið tryggt nægjanlegt fjármagn til að geta sinnt henni með vönduðum hætti, sagði Katrínar. 

Eignarhald fyrirtækja verður gert sýnilegra með nýjum lögum sem ganga í gildi 1. mars. Þar verða gerðar nýjar og ríkari kröfur um fyrirtæki upplýsi um raunverulega eigendur. Einnig verður á næstunni lagt fram frumvarp sem mun auka gagnsæi í rekstri stærri fyrirtækja í kerfislega mikilvægum greinum, kynnti Katrín ennfremur. 

Staðreyndir eiga undir högg að sækja

Hún vísaði almennt í mikilvægi upplýsingagjafar og það hafi sýnt sig í Samherjamálinu. „Í umræðu samtímans á pólitísk umræða sem byggist á gögnum og staðreyndum því miður undir högg að sækja,“ sagði Katrín. Upplýst umræða og mikilvægi þess og að réttar upplýsingar byggðar á staðreyndum sé haldið á lofti er brýnt. Hún vísaði meðal annars til falsfrétta sem hafa fengið meira rými í allri samfélagsumræðu. Hún skaut föstum skotum á stjórnmálamenn sem færu hreinlega með staðleysur og héldu fram ósannindum í málflutningi sínum. Þar af leiðandi væri mikilvægt að staðreyndum væri haldið á lofti til þess að standa vörð um lýðræði. 

Formaður og varaformaður VG.
Formaður og varaformaður VG. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín ræddi árangur flokksins og benti á þau málefni sem flokkurinn hefði lagt ríka áherslu á í stjórnarsamstarfinu að fara með ráðuneyti heilbrigðis- og umhverfismála. Þetta voru stóru mál VG þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð.

Hún benti á að frá árinu 1999 þegar flokkurinn var stofnaður með áherslu meðal annars á umhverfismál hafi margt breyst í samfélaginu. Til að mynda væri þetta eitt af þeim málum sem fyrirtæki setja í forgang í sínum stefnumálum. „Krafa almennings um aðgerðir í þessum málum er staðfesting á málflutningi okkar allt frá stofnun en sem betur fer eru fleiri stjórnmálamenn og flokkar komnir með okkur í þetta verkefni,“ sagði Katrín sem fagnaði vitundarvakningunni. 

„Gríðarleg þörf er fyrir innviðauppbyggingu,“ sagði Katrín og þar af leiðandi þyrfti að selja hlut í Íslandsbanka. Sérstaklega nefndi hún uppbyggingu vegakerfisins með fjölda einbreiðra brúa á vegum landsins.

„Kennitölukrúsidúllur“ ekki í boði heldur í jarða- og fasteignaviðskiptum

Katrín tók fram að á næstu dögum kynnir hún frumvarp um breytingar á lagaumgjörð um jarða- og fasteignaviðskipti sem hún bindur vonir við að breið samstaða skapist. Máli sínu til stuðnings vísar hún til þess að samkvæmt nýlegri skoðanakönnun vilja 84% landsmanna frekari hömlur á jarðakaup.

Í frumvarpinu „verður kveðið á um skýrari skilyrði fyrir viðskipti aðila utan EES-svæðisins, aukið gagnsæi um jarðaviðskipti almennt, stórbættri skráningu í landeignaskrá og skyldu til að fá samþykki ráðherra fyrir kaupum á stærri jörðum og í tilfelli aðila sem eiga mikið landflæmi fyrir,“ segir hún. Ennfremur verður ekki hægt að fara í kringum regluverkið með „kennitölukrúsidúllum“.

Kjósendur VG kröfuharðir og ætlast til árangurs

Staða flokksins í ríkisstjórnarsamstarfinu, fyrir hvað flokkurinn stendur og hvernig árangur er metinn er umræða sem Katrín vill að flokksfólk ræði fyrir alvöru um helgina. Á dögunum átti hún fund í Noregi með félögum flokksins í norrænum systurflokkum þar sem þetta var meðal annars rætt.

„Hvaða mál við erum ekki reiðubúin að gefa eftir? Kannski er það ágætis æfing til að efla pólitískt heilbrigði okkar að ganga í gegnum þá hugsun,“ sagði hún ennfremur. Hún sagðist ánægð með árangurinn sem hefði þegar náðst en hún veit að kjósendur eru „kröfuharðir og ætlast til mikils árangurs - róttækra breytinga og skjótvirkra breytinga.“

mbl.is