„Þá er maður í djúpum skít“

Trausti segir þau treysta á greiða í verkfallinu, en gerir …
Trausti segir þau treysta á greiða í verkfallinu, en gerir ráð fyrir að lenda í vandræðum í næstu viku, verði ekki samið. mbl.is/Árni Sæberg

Trausti Sigurbjörnsson þurfti að taka sér frí frá vinnu eftir hádegi í dag til að sækja dótturina Ísabellu Önnu á leikskólann Rauðhól, vegna verkfalls starfsfólks Eflingar. Hann segir ekkert annað hafa verið í boði. Þau hafi ekki getað fengið neinn annan til sækja og gæta Ísabellu í dag.

„Ég bý reyndar svo vel að eiga tengdamömmu sem gerir okkur mjög oft greiða og hún hjálpar okkur á morgun ef það verður ekki samið. En ég varð að fara í dag, konan er í skóla niðri í bæ.“

Hann segir þau verða að treysta á greiða í þessari stöðu, en veit ekki hvað þau gera ef til ótímabundins verkfalls kemur. „Þá er maður í djúpum skít. Konan í krefjandi námi og ég í krefjandi vinnu. Við lendum í veseni. Það er bara þannig.“

Félagsmenn Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg lögðu niður vinnu klukkan 12:30 í dag og mæta ekki aftur til vinnu fyrr en á föstudag, þar á meðal starfsfólk á leikskólum borgarinnar. Foreldrar, ömmur og afar, aðrir ættingjar og vinir þurftu því að sækja stóran hóp barna í hádeginu í dag, en verkfallið hefur áhrif á um helming leikskólabarna borgarinnar, um 3.500 talsins.

Brýtur upp daginn að sækja barnabarnið

Ingibjörg og Ingvar græða á verkfallinu og fá að njóta …
Ingibjörg og Ingvar græða á verkfallinu og fá að njóta meiri tíma með barnabörnunum. mbl.is/Árni Sæberg

„Við sækjum með glöðu geði,“ segja Ingibjörg Bjartmarsdóttir og Ingvar Sigfússon sem voru mætt til að sækja Óskar Þór á Rauðhól. Þau segjast vera ígildi ömmu og afa Óskars en foreldar hans eru að vinna og í skóla og áttu því erfitt með að sækja snemma í dag.

Það liggur ekki fyrir hvort Ingibjörg og Ingvar verða líka með Óskar á morgun og hinn, en það verður skipulagt síðar í dag. Þau segja alla hjálpast að þegar svona staða kemur upp.

Þau hafa einmitt hlaupið undir bagga með fleirum vegna verkfallsins og stukku til og sóttu önnur afa- og ömmubörn í síðustu viku. En þeim finnst þau bara vera að græða, það sé yndislegt að eyða tíma með barnabörnunum. „Hann skemmtir okkur vel þessi,“ segir Ingibjörg. „Þetta brýtur upp daginn hjá okkur,“ bætir Ingvar við glaður í bragði.

Konan líka í verkfalli 

Konan hans Hafsteins er starfsmaður á leikskóla og í verkfalli.
Konan hans Hafsteins er starfsmaður á leikskóla og í verkfalli. mbl.is/Árni Sæberg

Hafsteinn Ólafsson segist eiga skilningsríka vinnuveitendur og sveigjanleikinn á vinnustaðnum einnig töluverður, því hafi verkföllin ekki komið neitt sérstaklega illa við hans fjölskyldu. Þar að auki er konan hans félagi í Eflingu og starfsmaður á leikskóla. Hún er því sjálf í verkfalli. Hafsteinn var reyndar ekki í vinnu í dag vegna veikinda en staulaðist út til að sækja Freyju Mist í hádeginu.

„Það hefur meiri áhrif á mig þegar þeir á ruslabílunum fara í verkfall. Ég er að vinna hjá Sorpu og við þurfum að vinna allar helgar núna út af því. En ég styð þetta alveg.“

Lokaði fyrirtækinu til að sækja barnabarnið

Svava hefur gætt Hilmu á verkfallsdögum og mun halda því …
Svava hefur gætt Hilmu á verkfallsdögum og mun halda því áfram. mbl.is/Árni Sæberg

„Það verða allir að hjálpast að. Ég er með fyrirtæki sem ég loka bara í dag til að geta sótt,“ segir Svava Guðmannsdóttir sem sótti barnabarnið sitt, Hilmu Björt, á Rauðhól í dag. Foreldrar Hilmu eru bæði í vinnu og í skóla og amman á auðveldra um vik að sækja, sem sinn eigin herra á vinnustaðnum. Henni leiðist það þó ekki. „Þetta er æðislegt,“ segir Svava, en þær fá að njóta félagsskapar hvorrar annarrar í dag og næstu tvo daga, að minnsta kosti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert