56 metrar í hviðum í Eyjum

Afar vont veður er í Vestmannaeyjum.
Afar vont veður er í Vestmannaeyjum. mbl.is/Óskar

Spáin er að ganga eftir segir Hjálmar Björgvinsson, deildarstjóri almannavarna, en veðrið er verst á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum. Hann segir að það komi næst yfir Reykjanesið og Faxaflóa. 

Samkvæmt upplýsingum sem almannavarnir hafa frá Veðurstofu Íslands er veðrið svipað og spáð var en von er á nýjum upplýsingum þaðan á sjöunda tímanum. 

Veðrið hefur verið verst í Vestmannaeyjum í nótt.
Veðrið hefur verið verst í Vestmannaeyjum í nótt. mbl.is/Óskar

Í Vestmannaeyjum voru björgunarsveitir kallaðar út í nótt og er eitthvað um foktjón þar. Að sögn Hjálmars er það í takt við það sem mátti búast og svo virðist sem samfélagið þar hafi verið búið undir óveðrið. Austanáttin er sennilega einna skásta áttin þar en engu að síður er bálhvasst þar. Ekki hafa borist fregnir af útköllum björgunarsveita annars staðar en hvassviðrinu fylgir ofankoma. Heldur á að hlýna með morgninum og má búast við að það blotni í þessu.

Eitthvað hefur verið um foktjón í Vestmannaeyjum í nótt.
Eitthvað hefur verið um foktjón í Vestmannaeyjum í nótt. mbl.is/Óskar

Að sögn Hjálmars er hvergi rafmagnslaust enn sem komið er en fólk eigi ekki að láta sér bregða þó svo að viðbúið sé að einhverjar truflanir verði á rafmagni. 

Bætt við klukkan 5: Rafmagn sló út fyrir skömmu í Mýrdal og nágrenni en því var komið á aftur með varaafli.

Hvolsvallarlína leysir út og er úti vegna veðurs, samkvæmt upplýsingum á vef Landsnets.

Enn bætir í vind í Vestmannaeyjum og klukkan fjögur var stöðugur vindur kominn í 43 m/sek. og 56 m/sek. í hviðum, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Vestmannaeyjum. Björgunarsveit og lögregla hafa sinnt tíu verkefnum af ýmsu tagi. Búast má við að enn eigi eftir að bæta í vind og er veðrið verra í Vestmannaeyjum en spáð var að sögn lögreglu. 

mbl.is