Segja reglur brotnar og krefjast ábyrgðar

Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.
Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur. mbl.is/Hari

Reglur voru brotnar, tölvupóstum var eytt og gögn ekki skráð. Þetta segir Vígdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, að komi fram í nýrri skýrslu Borgarskjalasafns um frumkvæðisathugun á skjalastjórn skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar í tengslum við braggann við Nauthólsveg 100.

Vigdís óskaði eftir umræðunni á Borgarstjórnarfundi í dag um skýrsluna sem var lögð fyrir borgarráð í síðustu viku. Niðurstaða hennar er samhljóða skýrslu innri  endurskoðunar um braggann sem kom út í desember 2018. Þar kom fram að lög um skjalvörslu vegna framkvæmdanna við braggann í Nauthólsvík hafi verið brotin. Rannsókn hófst á málinu vegna framúrkeyrslu á kostnaði við braggann.

„Þetta er orðið sakamál og hefur alltaf verið,“ segir Vigdís ennfremur um málið og krefst þess að meirihlutinn axli ábyrgð á gjörðum sínum. Hún segir skort hafi verið á því alveg frá því málið kom upp fyrst. 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri bendir á að þegar málið hafi verið tekið til skoðunar hjá innri endurskoðun hafi því verið ólokið og því eðlilegt að öll skjöl hefðu ekki þegar verið skráð, líkt og rými er fyrir í lögum.

Hann ítrekar að þegar hafi verið brugðist við athugasemdum og tilmælum sem væru að finna í þessum tveimur skýrslum, þ.e.a.s. þessari og skýrslu innri endurskoðunar sem birtist árið 2018. Innan stjórnkerfisins hefði þegar verið stokkað upp, kallað eftir umbótaráætlunum í skjalavörslu borgarinnar svo fátt eitt sé nefnt. „Ég er býsna stoltur af því góð starfi sem hefur verið unnið,“ útskýrir hann.  

Hann telur einnig að fela ætti borgarlögmanni að bregðast við skýrslu Borgarskjalasafns og meta hana lögfræðilega.   

„Ófagleg“ og „ótraust“ að fela borgarlögmanni eftirlitshlutverk

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, furðar sig á því að starfsmaður borgarinnar yrði fenginn til að gera slíkt. „Það tíðkast ekki að maður rannsakar sjálfan sig,“ segir hún og bendir á að slíkt vinnubrögð séu bæði „ófagleg“ og „ótraust“. Enda gegndi embætti borgarlögmanns einstaklingur sem hafi verið „handvalinn“ af borgastjóra í embættið. Með þessum ummælum væri hún ekki að gera lítið úr borgarlögmanni sem fagmanneskju en óhjákvæmilegt væri að hann væri ekki ýkja gagnrýninn á störf borgarstjóra og meirihlutans. Undir þessi sjónarmið tóku aðrir fulltrúar minnihlutans. 

Minnihlutinn  gagnrýndi einnig að borgarskjalavörður hafi ekki komið sjálfur og kynnt skýrsluna fyrir borgarráði líkt og tíðkast alla jafna þegar aðrar sambærilegar skýrslur væru kynntar. Eyþór Laxdal Arnalds, fulltrúi Sjálfstæðisflokks, skoraði á meirihlutann að fá borgarskjalavörð til að mæta og kynna skýrsluna.

Eyþór gagnrýndi einnig að Borgarskjalasafn hefði ekki verið gerð sjálfstæðari eining innan stjórnkerfisins. Borgarskjalasafn sem eftirlitsaðili ætti að fá meira rými til slíks. Talsverð umræða spannst um þann lið þar sem meirihlutinn ítrekaði að stjórnkerfisbreytingarnar hefðu eflt Borgarskjalasafnið til muna og væri til mikilla bóta. 

Umræður standa enn yfir á Borgarstjórnarfundi. Dagskrárliðirnir eru 9 talsins og umræða um fyrrnefnda skýrslu fimmta mál á dagskrá. Fundur hófst klukkan 14 í dag. 

Hér er hægt að fylgjast með í beinni. 

mbl.is