Töldu heimildir til framsals til staðar

Samkeppniseftirlitið skoðar nú hvernig unnt verði að vernda samkeppnishagsmuni neytenda …
Samkeppniseftirlitið skoðar nú hvernig unnt verði að vernda samkeppnishagsmuni neytenda á Hvolsvelli og Hellu. mbl.is/Árni Sæberg

Samkeppniseftirlitið taldi eftir viðræður sínar við Festi, móðurfélag N1 og Krónunnar, að gengið hefði verið úr skugga um að heimild væri til framsals allra réttinda er tengdust sölu eigna þeirra á Hvolsvelli og Hellu, er gerð var sátt á milli þeirra árið 2018 vegna samruna Festis og N1.

Í frétt Morgunblaðsins í dag kemur hins vegar fram að sveitarstjórnir Rangárþings ytra og Rangárþings eystra hafi hafnað því að veita Festi heimild til að framleigja verslunarhúsnæði sitt á þessum stöðum til annarra verslanakeðja. Í ljós kom að íbúar á Hvolsvelli vilja ekki missa Krónuna úr bænum og fá í staðinn Nettóverslun, en verslunarhúsnæðið er í eigu sveitarfélagsins.

„Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á samruna N1 og Festi leiddi m.a. í ljós að verslanir Festi, Krónan á Hvolsvelli og Kjarval á Hellu, og N1 á Hvolsvelli yrðu nánast með einokunarstöðu í sölu dagvara á Hellu og Hvolsvelli eftir samrunann. Til þess að kanna það samkeppnislega aðhald sem aðrar verslanir, s.s. í næstu bæjarfélögum, myndu veita hinu sameinaða fyrirtæki var framkvæmd neytendakönnun á meðal viðskiptavina samrunaaðila á Hellu og Hvolsvelli. Niðurstöður hennar bentu til þess að samrunaaðilar væru nánir keppinautar á þessu svæði og myndu búa við takmarkað samkeppnislegt aðhald á svæðinu eftir samrunann. Sú röskun á samkeppni sem af samrunanum leiddi fælist einkum í breyttum hvötum samrunaaðila í kjölfar samrunans á svæðinu, s.s. til þess að keppa í verði, vöruframboði, opnunartíma og annarri þjónustu við viðskiptavini,“ segir í tilkynningu sem Samkeppniseftirlitið sendi frá sér í dag eftir að frétt um málið birtist í Morgunblaðinu.

Til þess að bregðast við framangreindu lögðu samrunaaðilarnir fram tillögur um að leysa þessi samkeppnislegu vandamál sem ella hefðu leitt af samrunanum. Fólu þær tillögur í sér sölu verslunar Kjarvals á Hellu, en þar sem vafi lék á söluhæfi þeirrar verslunar var mælt fyrir um að aðrar eignir félagsins yrðu seldar á grundvelli sömu skilmála.

„Slíkt skilyrði er þekkt leið í samkeppnisrétti til þess að bregðast við óvissu um möguleika á sölu framboðinna eigna. Var það mat Samkeppniseftirlitsins að framboðin skilyrði Festi fælu í sér mótvægi við þau skaðlegu áhrif á samkeppni sem samruninn hefði annars í för með sér fyrir íbúa og aðra neytendur á svæðinu.“

Vegna þróunar málsins hefur Samkeppniseftirlitið nú til skoðunar hvernig unnt er að tryggja að markmið sáttarinnar, sem felur meðal annars í sér að vernda samkeppnishagsmuni neytenda á Hellu og Hvolsvelli, nái fram að ganga.

Í ljósi framangreinds hefur Samkeppniseftirlitið nú til skoðunar, í ljósi þróunar málsins og annarra aðstæðna, hvernig unnt er tryggja að markmið sáttarinnar um m.a. að vernda samkeppnishagsmuni neytenda á Hellu og Hvolsvelli nái fram að ganga. „Er það gert á grundvelli þess fyrirkomulags og málsmeðferðar sem sáttin og samkeppnislög kveða á um,“ að segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert