Vilja ekki horfast í augu við staðreyndir

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að ekki virðist vera vilji hjá Reykjavíkurborg til að horfast í augu við staðreyndir málsins í kjaradeilunni sem nú er uppi.

„Sú sanngjarna krafa sem við förum fram með um þessa sérstöku leiðréttingu, þau virðast ekki ætla sér að viðurkenna réttmæti hennar,“ segir Sólveig Anna.

Fundur var haldinn hjá ríkissáttasemjara í dag og eftir hann lýsti Efling yfir vonbrigðum vegna viðbragða borgarinnar við tillögum samninganefndar stéttarfélagsins. 

Spurð hvort það komi til greina fyrir Eflingu að draga einhverjar tillögur til baka segir hún að þegar tillagan var lögð fram í gær, sem hafi verið „mjög lausnarmiðuð“, hafi samninganefnd Eflingar heyrt áhyggjur Reykjavíkurborgar og brugðist við þeim.

„Við höldum ótrauð áfram í okkar baráttu og eigum ekki annarra kosta völ. Svo ítreka ég það sem ég segi alltaf. Við höfum þennan mikla stuðning félagsmanna við því sem við erum að gera,“ segir Sólveig og nefnir að á fundum með trúnaðarmönnum hafi samstaðan verið bæði einlæg og mikil.

„Við höldum áfram að ráða okkar ráðum, sinna verkfallsvörslu, hittast og blása baráttuanda í brjóst hvert annars,“ bætir hún við, spurð út í næstu skref.

mbl.is

Bloggað um fréttina