Klippti sig eins og Ziggy Stardust

Hulda Hákon og Jón Óskar hafa verið saman í bráðum …
Hulda Hákon og Jón Óskar hafa verið saman í bráðum hálfa öld. Þau segjast stundum metast um hvort sé betri kokkur en þau metast aldrei um hvort sé betri listamaður. mbl.is/Ásdís

Hjónin og listamennirnir Hulda Hákon og Jón Óskar hafa verið saman í bráðum hálfa öld, en leiðir þeirra lágu saman í menntaskóla árið 1972. Bæði fetuðu þau listabrautina með góðum árangri og segjast aldrei metast um myndlistina.

Tveir afar stórir þýskir fjárhundar tóku hressilega á móti blaðamanni. Þarna voru mættar Heiða Berlín og Lillý Berlín sem voru að vonum spenntar fyrir gestinum og buðu í bæinn. Heimilið ber þess glöggt vitni að þarna búa tveir listamenn; listaverk hanga uppi um alla veggi og við gluggann má finna vinnuborð þar sem Hulda nostrar við verk sín. Svolítið kaótískt eins og hjá sönnum listamönnum. Á neðri hæð málar svo Jón Óskar stór málverk, en þau hjón eiga líka afdrep í Vestmannaeyjum þar sem mörg listaverkanna verða til.

Hafa ólíkan smekk en samrýnd

Hulda og Jón Óskar bjóða upp á kaffi og skiptast svo á að skemmta blaðamanni með sögum. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þau hittust árið 1972 en hjónin stikluðu á stóru og sögðu skemmtilega frá sínum „betri“ helmingi. Ljóst er að þrátt fyrir að þau séu afar ólík og hafi ólíkan smekk í pólitík, tónlist, kvikmyndum og mat eru þau afar samrýnd. Þau hafa alltaf nóg að tala um og svo styðja þau hvort annað í listinni. Bæði segja þau engan meting vera að finna varðandi myndlistina, þó svo að þau geti kýtt yfir hvort sé betri kokkur eða hvernig eigi að leysa vandamál þjóðarinnar.

Alltaf pollrólegur

Hulda byrjar á að segja frá. 

„Ég var sextán og hann átján þegar við byrjuðum saman. Ég man ég sá hann fyrst á Skólavörðustígnum og svo á Silfurtunglinu. Mér leist dálítið vel á hann. Svo vorum við saman í menntó, í Menntaskólanum við Tjörnina. Þarna um haustið kom skólasystir mín til mín og sagði mér að það væri strákur í þriðja bekk sem væri svo skotinn í mér. Þá var það hann,“ segir Hulda og hlær.

Hvernig týpa var hann?

„Hann er elstur af fimm bræðrum og það var gjarnan þannig að sá sem talaði hæst komst að. Og það var gjarnan Jón Óskar,“ segir Hulda.

„Hann var mjög vinamargur. Hann var enginn gæi; ekki „formaður-nemendafélagsins-týpa“. En hann var kannski vinur hans. Ég held að það sem hefur alltaf heillað mig við hann er hvað hann er alltaf pollrólegur. Það er mjög gott að vera nálægt honum. Aldrei æsingur. En maður er búin að finna út að kostirnir geta líka verið gallarnir, af því að mér finnst hann stundum dálítið staður. Hann vill bara vera heima og hlusta á plötur og mála. En ég myndi ekki vilja skipta því út.“

Hulda segir tónlist alltaf hafa verið eitt helsta áhugamál Jóns Óskars.

„Hann hlustaði mikið á tónlist og var mikill Bowie-aðdáandi; hann var svona með þeim fyrstu sem hlustuðu mikið á hann. Ég hlusta alveg á Bowie en ég er meira fyrir klassíkina en hann.

Mér fannst það dálítið erfitt þegar hann klippti sig eins og Ziggy Stardust; mér fannst það svo hallærislegt. Með svona bursta ofan á. En ég var nú ekkert að skipta mér af því neitt,“ segir Hulda og bætir við að þau séu með ólíkan tónlistarsmekk.

„Þú ættir að sjá plötusafnið hans, og svo heldur hann fyrirlestra yfir mér um eitthvað sem mér þykir misáhugavert, en samt þykir mér vænt um það vegna þess að ég er orðin mellufær í rokksögunni því hann er alltaf að tala um rokktónlist. Hann veit allan fjárann.“

Við erum sko klíka

Hulda segir að Jón hafi verið rekinn úr Myndlistaskólanum fyrir slælega frammistöðu. „Hann hélt því fram að þetta litla sem hann gerði hafi verið svo ofboðslega gott að það hefði ekki átt að reka hann. En hann var rekinn. Og þá fór hann til New York og ári seinna flutti ég út til hans,“ segir hún og bætir við að þar höfðu þau búið í fimm ár.  

„Í skólanum var hann fyrst pínulítið að leita en hann fann mjög fljótt fjölina. Hann gerði mjög drungaleg verk á níunda áratugnum en mér finnst aftur á móti núna að hann sé orðinn mjög bjartur. Undanfarnar sýningar hafa verið bjartar og fallegar. Hann hefur stundum sagt við mig að hann sé enginn coloristi en svo er hann svo mikill coloristi. Og það er kannski núna að springa út, undanfarin sex, sjö ár.“

Nú eruð þið bæði í myndlist, hvernig er ykkar samband varðandi myndlistina?

„Við hvetjum hvort annað og gagnrýnum. Það hefur aldrei verið rígur eða samkeppni. Við höfum verið það heppin að annaðhvort gengur okkur vel til skiptis eða bara á sama tíma. Annað hefur aldrei koðnað undan velgengni hins. Við viljum frekar að hinum gangi vel heldur en öðrum kollegum. Við erum sko klíka,“ segir hún og hlær.  

Jón Óskar fær nú orðið. 

„Ég man eftir henni fyrst í Reykholti, sem var reykherbergið og mötuneytið í menntaskólanum. Ég man að við húktum þarna tveir vinir uppi á borði og vorum að ræða stelpur. Við vorum að horfa yfir hóp stelpnanna og fundum þarna sitt hvora og byrjuðum með þeim báðir síðar,“ segir Jón Óskar og hlær.

„Ég tók fyrst eftir því hvað hún var hávaxin. Svo fór ég að fylgjast með henni í skólanum og frétti svo að hún ætti að vera í dansatriði með vini mínum og hópi krakka. Þá skráði ég mig í það. Ég er enginn dansari, en ég skráði mig til þess að kynnast henni. Mikið á sig lagt.“

Hulda og Jón Óskar byrjuðu saman í menntó og höfðu …
Hulda og Jón Óskar byrjuðu saman í menntó og höfðu bæði haft augastað á hinu áður en þau kynntust.

Átti að vera heimasæta

Hvernig týpa var hún?

„Hún var mikill skáti og var mikið í því starfi. Fór í alls konar göngur og var mikil útivistarmanneskja. Ég hef aldrei verið það. Hún hafði mikinn áhuga á þjóðlegum sögum og kvæðum. Þetta lærði hún frá ömmum sínum, sérstaklega annarri þeirra. Hún gat þulið upp þulur og kvæði sem mér fannst mjög sérstakt. Ég var frekar í ómerkilegum dægurmálum; það er allt miklu grynnra hjá mér. Hún var náin ömmu sinni Kristínu og hún var oft í sveit hjá henni. Þar fengu þær systurnar dálítið sérstakt uppeldi. Amma þeirra vildi hafa þær fínar; þær áttu ekki að vinna á bænum heldur vera í kjólum að drekka kakó. Svona heimasætur. Kristín stóð henni mjög nærri og seinna meir þegar hún fer í myndlist mátti sjá að stór hluti hennar verka eru byggð á sögum í kringum ömmu hennar, og eru í raun enn. Það er þessi þjóðtrú og huldusögur. Fósturafi hennar var alltaf að tala um Gretti Ásmundarson og Hulda skynjaði eins og hann væri bara þarna hinum megin við fjallið.“

Á alltaf hákarl í ísskápnum

Hvernig myndir þú lýsa Huldu?

„Hún er mjög hreinskiptin, það liggur ekkert á henni. Hún mætti stundum láta hlutina ósagða. Ég kann samt vel að meta það hvað hún er hreinskiptin. Hún er mjög heil í öllu,“ segir hann.

„Við náðum strax mjög vel saman. Þegar við bjuggum í sitt hvoru lagi hjá foreldrum okkar lágum við heilu kvöldin í símanum. Við höfum alltaf talað mjög mikið saman. En mér hefur alltaf fundist við vera ólík. Við lesum ekki sömu bækur, horfum ekki á sömu bíómyndir. Hún hefur áhuga á gömlum breskum myndum. Við hlustum ekki á sams konar tónlist, eða að minnsta kosti er afgerandi hvar okkar áhugi liggur. Hún hefur gaman að söngvaljóðum, einsöngslögum og ættjarðarlögum. Amma hennar kenndi henni öll þessi amerísku Steven Foster-lög og lög þýsku millistríðsáranna sem urðu seinna tabú að syngja,“ segir Jón Óskar og hlær.

Hulda og Jón Óskar eiga tvo þýska fjárhunda, Lillý Berlín …
Hulda og Jón Óskar eiga tvo þýska fjárhunda, Lillý Berlín og Heiðu Berlín. mbl.is/Ásdís

Jón Óskar segir þau bæði liðtæk í eldhúsinu en hafa ólíkan smekk á mat sem öðru.

„Hulda eldar mjög íslenskan mat. Hún vill kótilettur, lambalæri, þorramat. Hún kaupir oft hákarl og á í ísskápnum og það er alltaf harðfiskur hér á borði. Besti matur sem ég fæ er Miðjarðarhafsmatur. Við eldum til skiptis en það er engin regla heldur frekar kaótískt. Þegar ég elda segir hún kannski, „það var nú betra sem ég eldaði í gær“. Ég segi henni stundum til í eldamennsku og hún gerir það líka hjá mér. Ég vitna þá oft í kokkaþætti sem ég horfi mikið á; segi þá kannski; „Gordon Ramsey myndi ekki gera þetta svona“. Það er metingur í öllu. En ekki í myndlistinni; við erum svo gjörólík í myndlist að það skarast ekki.“

Við látum það verða lokaorðin og í sama mund kemur Hulda heim úr göngutúr með hundunum. Hún er búin að kaupa í matinn. Hrogn, nema hvað!

Ítarleg viðtöl við Huldu og Jón Óskar eru í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »