Engum Ítalíuferðum aflýst vegna veirunnar

Hermaður stendur vörð utan við smábæinn Vo Vecchio, sem er …
Hermaður stendur vörð utan við smábæinn Vo Vecchio, sem er í Venetó-héraði, um það bil miðja vegu á milli Veróna og Feneyja. Þaðan má enginn fara. AFP

Íslenskar ferðaskrifstofur fylgjast vel með nýjustu tíðindum af stöðu mála á Norður-Ítalíu, þar sem stjórnvöld hafa brugðið á það ráð að setja yfir 50.000 manns í farbann í bæjum og þorpum þar sem kórónuveiran, COVID-19, hefur greinst í yfir 200 manns. Sex eða sjö manns hafa látist á Norður-Ítalíu vegna veirunnar, samkvæmt nýjustu fregnum ítalskra miðla.

Ítalía er vinsæll áfangastaður íslenskra ferðalanga og nokkrar íslenskar ferðaskrifstofur bjóða upp á pakkaferðir til þeirra héraða Ítalíu þar sem veiran hefur komið upp, Langbarðalands og Venetó-héraðs. Tíu bæjum í Langbarðalandi hefur í reynd verið lokað og einum í Venetó-héraði.

Ferðamenn á ferð á Markúsartorgi í Feneyjum í dag.
Ferðamenn á ferð á Markúsartorgi í Feneyjum í dag. AFP

mbl.is hafði samband við forsvarsmenn Úrvals-Útsýnar, VITA, Bændaferða og Heimsferða og alls staðar var svipuð svör að fá, grannt er fylgst með stöðunni, en ekki hefur komið til þess að ferðir séu felldar niður. 

Úrval-Útsýn og VITA eru með skipulagða ferð frá Keflavík til Veróna næsta laugardag og VITA er með farþega þar úti núna, en lengra er í skipulagðar ferðir hinna ferðaskrifstofanna. Ber þó að taka fram að mbl.is leitaði til ferðaskrifstofanna áður en sótt­varna­lækn­ir ráðlagði fólki að sleppa ónauðsyn­leg­um ferðum til Langbarðalands, Venetó, Em­il­ía Rómanja og Píemonte á Ítal­íu. Þau fyrirmæli voru gefin í stöðuskýrslu al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra vegna veirunn­ar sem kom út síðdegis. 

Afbókanir á ábyrgð farþega

„Við erum með flug á laugardaginn og eins og staðan er í dag fylgjumst við bara vel með boðum frá yfirvöldum á Ítalíu og frá landlækni,“ segir Ingibjörg Elsa Eysteinsdóttir, forstöðumaður hjá Úrvali-Útsýn, við mbl.is. „Á meðan Ítalía gerir engar breytingar þá er bara allt óbreytt hjá okkur,“ bætir Ingibjörg við og segir að það sé ekki nema flugvöllurinn í Veróna lokist eða íslensk yfirvöld loki fyrir ferðamannastrauminn út úr landinu á einhver ákveðin svæði, sem breytingar verði gerðar.

Hún segist vita til þess að nokkrir farþegar sem eigi bókað hafi hringt inn í dag með fyrirspurnir um stöðuna. Úrval-Útsýn hefur bent farþegum sínum á að kíkja á vef embættis landlæknis, en engu í áætlunum ferðaskrifstofunnar verður breytt fyrr en yfirvöld gefa eitthvað út sem gefur tilefni til þess.

Íbúar í smábænum Casalpusterlengo á Norður-Ítalíu sjást hér bíða þess …
Íbúar í smábænum Casalpusterlengo á Norður-Ítalíu sjást hér bíða þess að fá að komast inn í matvöruverslun, en þangað var þeim hleypt inn í 40 manna hópum í gær. Bærinn, eins og fleiri, er í sóttkví sem ítölsk yfirvöld hafa fyrirskipað til að reyna að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. AFP

„Ef fólk vill afbóka þá er það algjörlega á þess eigin ábyrgð að afbóka, það eru engar forsendur hjá mér í dag fyrir því að afbóka, heldur er bara farið eftir afbókunarskilmálum ferðaskrifstofunnar,“ segir Ingibjörg.

Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri VITA, segir ferðaskrifstofuna hafa verið í sambandi við embætti landlæknis í dag og hann hafi heyrt af því að í dag sé embættið á símafundi með evrópskum heilbrigðisyfirvöldum vegna þeirrar stöðu sem nú er komin upp. „Við erum að bíða eftir þeirra leiðbeiningum, sem við förum náttúrlega eftir,“ segir Þráinn við mbl.is.

„Þetta er í höndum landlæknisembættisins og sóttvarnalæknis, hvað verða næstu skref, og við förum bara eftir því,“ segir Þráinn, sem hefur ekki heyrt af afbókunum hjá farþegum VITA en veit til þess að einhverjir hafi haft samband með fyrirspurnir eftir að fréttir tóku að berast af útbreiðslu veirunnar á Ítalíu.

„Klárlega með hugann við þetta“

Lengra er í ferðir bæði Heimsferða og Bændaferða til Norður-Ítalíu, sem áður segir. Hugrún Hannesdóttir, deildarstjóri hjá Bændaferðum, segir að ferðaskrifstofan bíði nú eftir upplýsingum frá bæði utanríkisráðuneytinu og landlæknisembættinu, til þess að geta tekið ákvarðanir sem byggist á staðfestum gögnum.

„Við erum klárlega með hugann við þetta,“ segir Hugrún. „Það eru alveg nokkrar vikur í okkar fyrstu ferð til Ítalíu og við ætlum að bíða aðeins og sjá hvaða upplýsingar koma og taka ákvarðanir út frá því,“ segir Hugrún.

Konur hylja vit sín grímum á dómkirkjutorginu í Mílanó í …
Konur hylja vit sín grímum á dómkirkjutorginu í Mílanó í dag. Dómkirkjan sjálf, sem þúsundir ferðamanna skoða á hverjum degi, er lokuð. AFP

Svipuð svör fengust frá Heimsferðum. „Við erum náttúrulega ekki með flug á næstunni til Ítalíu, það er ekki fyrr en um páskana fyrsta flugið okkar, 8. apríl til Mílanó. Við erum bara að fylgjast með hvernig þróunin verður, en það er of snemmt að segja til um hvernig þetta þróast,“ segir Tómas J. Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða.

„Vonandi ná Ítalir tökum á þessum sem allra fyrst,“ segir Tómas.

mbl.is

Kórónuveiran

6. apríl 2020 kl. 10:47
1486
hafa
smitast
428
hafa
náð sér
38
liggja á
spítala
6
eru
látnir