Skoða hækkun skráningargjalda um rúm 40%

Aðspurð hvað þetta þýði fyrir stúdenta segir Jóna Þórey hækkað …
Aðspurð hvað þetta þýði fyrir stúdenta segir Jóna Þórey hækkað skráningargjald hækka hindrun til náms. mbl.is/Ómar Óskarsson

Til skoðunar er að hækka skráningargjöld í Háskóla Íslands, sem nú eru 75.000 krónur. Í minnisblaði sem lagt var fyrir háskólaráð vegna málsins kemur fram að skráningargjaldið ætti að vera um 104.000 krónur árið 2020 og um 107.000 krónur árið 2021 ef miðað væri við forsendur núverandi fjárlaga um verðhækkanir og ráð gert fyrir 3% hækkun verðlags á milli ára.

Forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands segir að slík hækkun skráningargjalda myndi auka enn á hindranir íslenskra námsmanna, sem þegar hafi verið sýnt fram á að þurfi að vinna mest með háskólanámi. Þá lánar Lánasjóður íslenskra námsmanna ekki fyrir skráningargjöldum.

Málið var tekið fyrir á fundi háskólaráðs Háskóla Íslands 6. febrúar og var þar samþykkt að fela rektor skólans, Jóni Atla Benediktssyni, að taka málið upp á samstarfsvettvangi rektora opinberra háskóla og við mennta- og menningarmálaráðherra.

Óska eftir fundi með ráðherra vegna málsins

Fulltrúar stúdenta í háskólaráði greiddu atkvæði gegn því að rektor færi áfram með málið og segir Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti Stúdentaráðs HÍ, að hún hafi sjálf óskað eftir fundi með mennta- og menningarmálaráðherra til þess að ræða málið. Þá verður ákvörðun háskólaráðs til umræðu á fundi Stúdentaráðs á miðvikudag, þar sem ályktað verður um afstöðu ráðsins.

Jóna Þórey Pétursdóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
Jóna Þórey Pétursdóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Skráningargjöld voru síðast hækkuð árið 2014, úr 60.000 krónum í 75.000 krónur, en samkvæmt lögum um opinbera háskóla mega skráningargjöld ekki skila háskóla hærri tekjum en sem nemur samanlögðum útgjöldum háskólans vegna nemendaskráningar og þjónustu við nemendur sem ekki telst til kostnaðar við kennslu og rannsóknarstarfsemi. Þá þarf lagabreytingu til þess að opinberir háskólar geti hækkað skráningargjald sitt.

Hæstu sambærilegu gjöldin 13.000 krónur

„Þetta er klárlega eitthvað sem við munum fara mjög vandlega ofan í. Við erum búin að bera saman tölur og hæstu sambærilegu gjöld á Norðurlöndunum sem við fundum voru í Noregi, 13.000 krónur íslenskar. Ef við tölum um aðgengilegt háskólanám þá er það ekki til staðar með þetta 75.000 króna skráningargjald, hvað þá ef það er hækkað í 104.000 krónur. Þetta er 40% hækkun sem er til umræðu.“

Aðspurð hvað þetta þýði fyrir stúdenta segir Jóna Þórey hækkað skráningargjald hækka hindrun til náms, en Lánasjóður íslenskra námsmanna lánar ekki fyrir skráningargjöldum.

„Eurostudent hefur sýnt fram á að stúdentar á Íslandi þurfi að vinna langmest með skóla, á sama tíma og íslenskir nemendur meta það þannig að þeir þurfi að stunda námið sitt af miklum ákafa.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is