Ríkið leigir hótel á Rauðarárstíg undir sóttkví

Fosshótel Lind við Rauðarárstíg hefur verið tekið á leigu af …
Fosshótel Lind við Rauðarárstíg hefur verið tekið á leigu af íslenska ríkinu til næstu tveggja mánaða. Þar verður sóttkví, ef á þarf að halda, fyrir þá sem ekki geta verið í sóttkví annars staðar. Ljósmynd/Íslandshótel

Sjúkratryggingar Íslands hafa, að beiðni heilbrigðisyfirvalda, tekið Fosshótel Lind við Rauðarárstíg á leigu. Til stendur að nota hótelið sem sóttkví fyrir þá sem ekki hafa kost á að vera í sóttkví heima hjá sér, ef á þarf að halda. Þetta staðfestir María Heimisdóttir forstjóri Sjúkratrygginga við mbl.is, en Vísir greindi fyrst frá.

Hótelið er í eigu hótelkeðjunnar Íslandshótela, sem hafði tök á því að færa gesti sína yfir á önnur hótel. Gestum voru færð þessi tíðindi í morgun og segir Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, að það hafi gengið vel að finna þeim aðra dvalarstaði.

Tveggja mánaða samningur með möguleika á framlengingu

Samningurinn um leiguna er til tveggja mánaða, með möguleika á framlengingu og segir María að um varúðarráðstöfun sé að ræða í ljósi þróunarinnar með kórónuveiruna.

„Þetta er hugsað sem aðstaða fyrir fólk, sóttkví mögulega, fyrir erlenda ferðamenn og Íslendinga sem ekki geta verið í sóttkví heima hjá sér,“ segir María, en 78 herbergi eru á hótelinu. Þau eru öll leigð í einum pakkasamningi.

Staðsetningin við Rauðarárstíg er ágæt að sögn Maríu, frekar miðsvæðis en ekki alveg ofan í miðbæ og aðstæður á hótelinu allar góðar.

Það sem réð þó mestu um að þetta hótel varð fyrir valinu af hálfu yfirvalda var þó að hótelið er hluti af keðju og því var hægt að tæma hótelið auðveldlega með því að færa gestina á önnur hótel innan sömu keðju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert