Vonar að borgarstjóri bregðist við með sæmd

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Eftir miklar bollaleggingar og vangaveltur fannst okkur þetta vera það rétta í stöðunni að kalla eftir því að borgarstjóri staðfesti það sem hann sjálfur fór fram með í þessu margumrædda Kastljósviðtali,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í samtali við mbl.is. 

Efling sendi í morgun erindi til Dags B. Eggertssonar borgarstjóra þar sem Efling býðst til að fresta verk­fallsaðgerðum í tvo sól­ar­hringa gegn því að Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri veiti skrif­lega staðfest­ingu á „Kast­ljós­stil­boðinu“ svokallaða. 

Í Kast­ljósi 19. fe­brú­ar síðastliðinn sagði Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri að til­boð Reykja­vík­ur­borg­ar væri „mesta hækk­un lægstu launa“ sem sést hefði. Þar ræddi hann um 110 þúsund króna grunn­launa­hækk­un á samn­ings­tíma fyr­ir ófag­lærðan Efl­ing­ar­starfs­mann. 

Sólveig segir að samninganefnd borgarinnar hafi hingað til ekki viljað staðfesta tilboð borgarstjóra á fundum deiluaðila. „Tilgangurinn með þessu er að knýja á um það að borgarstjóri standi við það sem hann hefur sjálfur farið með fram í umræðuna og það sem almenningur telur að sé á borðinu.“ 

Frekari frestun á verkföllum fer eftir viðbrögðum borgarstjóra

Verði erindi Eflingar samþykkt af borgarstjóra og Reykjavíkurborg segir Sólveig að það skapi frekari umræðugrundvöll í samningsviðræðum. Verkfallsaðgerðir tæplega 2.000 félagsmanna Eflingar hafa staðið yfir á fjórðu viku. 

„Þetta væri þá mál sem myndi leysast og við erum tilbúin til að fresta verkföllum í tvo sólarhringa með það að leiðarljósi að geta raunverulega sest niður og haldið áfram að vinna í því að leysa hin atriðin sem sannarlega þarf að ganga frá líka,“ segir Sólveig og nefnir sérgreiðslur, uppbætur og álagsgreiðslur sem dæmi sem enn á eftir að ná samkomulagi um. 

Aðspurð um frekari frestun á verkföllum segir Sólveig það fara eftir viðbrögðum borgarstjóra. „Ef borgarstjóri bregst við þessu og við göngum að þessu samkomulagi og förum af fullum krafti í viðræður undir stjórn ríkissáttasemjara og þær ganga vel, þá myndum við meta stöðuna að þessum tveimur dögum loknum.“ 

Síðasti fund­ur samn­inga­nefnda Efl­ing­ar og Reykja­vík­ur­borg­ar var á miðviku­dag­inn í síðustu viku. Ekki hef­ur verið boðað til nýs fund­ar í deil­unni. „Ég ætla að leyfa mér að vona það, fyrir hönd samninganefndar Eflingar og þessa stóra hóps félagsmanna sem hefur staðið í þessari baráttu, að borgarstjóri bregðist við með sæmd við þessari hugmynd okkar og þá verði samstundis boðað til fundar,“ segir Sólveig.

Erindið var sent borgarstjóra, með afriti á ríkissáttasemjara, klukkan 11 í morgun. Degi er gefinn frestur til klukkan 16 í dag til að svara erindinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert