Verkfall hefur mikil áhrif á starfsemi grunnskóla

Allt starfsfólk í Sameyki sem starfar í grunnskólum og á …
Allt starfsfólk í Sameyki sem starfar í grunnskólum og á frístundaheimilum mun leggja niður störf hafi ekki samist fyrir mánudag. mbl.is/Hari

Fyrirhugað verkfall félagsmanna Sameykis sem starfa hjá Reykjavíkurborg kemur til með að hafa mikil áhrif á starfsemi grunnskóla borgarinnar, en félagið hefur boðað til ótímabundins verkfalls, sem tekur til allra félagsmanna Sameykis sem starfa hjá borginni, frá og með 9. mars. Um 850 félagsmenn í Sameyki starfa í grunnskólum borgarinnar.

Í bréfi sem Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, hefur sent á skólastjórnendur kemur fram að félagsmenn í Sameyki sinni ræstingu að hluta til eða að öllu leyti í flestum skólum borgarinnar.

„Ljóst er að einungis er hægt að halda úti skólastarfi í takmarkaðan tíma í húsnæði sem ekki er þrifið.

Þjónusta mötuneyta gæti lagst af í fleiri skólum en nú er. Nemendum er að sjálfsögðu heimilt að koma með nesti í skólann. Ekki verður tekið gjald vegna mataráskriftar í þeim tilvikum sem matarþjónusta leggst af,“ segir m.a. í bréfinu. 

Þá segir, að komi til verkfalls muni starfsemi frístundaheimila Reykjavíkurborgar stöðvast. Ekki verði tekið gjald fyrir þjónustu frístundaheimila þann tíma sem þau séu lokuð vegna verkfalls.

Foreldrar eru hvattir til að fylgjast vel með fréttum í fjölmiðlum, á heimasíðu Reykjavíkurborgar og frá skólastjórum/heimasíðum grunnskólanna.

Dæmi er um að í einum grunnskóla borgarinnar muni nemendur í 1.-4. bekk aðeins fá tvær kennslustundir, eða frá 8:30 til 9:50, og þurfi svo að halda heim. Eldri bekkingar fái þrjár kennslustundir, eða frá 10:10 til 12:10, og þurfi síðan að fara heim, ef af verkfalli verður. 

Skólastjórendur taka fram að kennarar séu ekki í verkfalli og muni mæta til vinnu og sinna sínum vinnuskyldum venju samkvæmt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert