Snjókarl eini félagsskapurinn í sóttkví

Áskell ákvað að taka sóttkvína með trompi í sumarbústað fjölskyldunnar …
Áskell ákvað að taka sóttkvína með trompi í sumarbústað fjölskyldunnar á Laugum í Reykjadal. Ljósmynd/Aðsend

Áskell Jónsson er farinn að sjá fyrir endann á fjórtán daga sóttkví, sem hann ákvað að taka með trompi í sumarbústað fjölskyldunnar eftir ferðalag til Ítalíu. Eftir tólf daga einveru kveðst Áskell enn vera í góðu standi og segist kunna því ágætlega að vera út af fyrir sig.

Áskell var í ferðalagi á Sikiley á Ítalíu, en varði síðustu tveimur dögum ferðarinnar í Torino á Norður-Ítalíu. „Ítalía komst í fréttirnar á meðan ég var á Sikiley og ég komst ekkert að því að ég væri á leiðinni í sóttkví fyrr en daginn sem ég átti að fljúga heim frá Mílanó,“ segir Áskell í samtali við mbl.is.

Áskell segir fólk hafa virt sóttkvína.
Áskell segir fólk hafa virt sóttkvína. Ljósmynd/Aðsend

Eins og áður segir ákvað Áskell að taka sóttkvína með trompi í sumarbústað fjölskyldunnar á Laugum í Reykjadal. Þar getur hann verið alveg út af fyrir sig og varaði jafnvel nágranna sína við því að koma að bústaðnum með því að skrifa skilaboð í snjóinn: SÓTTKVÍ, en það er eitt af verkefnunum sem Áskell hefur notað til að halda sér uppteknum, en reglulega hefur snjóað aftur ofan í skilaboðin.

Líkamsrækt að moka snjó

„Við erum með svolítið stóran pall hérna og nóg af snjó. Þetta er bara mín líkamsrækt,“ segir Áskell. Þá þurfti hann að moka mikið magn af snjó frá kartöflugeymslunni við bústaðinn, en hann tók auk þess nóg af dósamat og baunum með sér í bústaðinn og er vel haldinn.

Áskell hefur líka notað snjóinn til þess að halda sér félagsskap, en hann bjó til snjókarl sem horfir brosandi inn um gluggann til hans alla daga. „Það var bara upp á félagsskapinn. Hann er mjög vinalegur og þetta hefur áhrif. Það er alltaf gaman að sjá hann þegar maður dregur frá á morgnana og hann er alltaf glaður.“

Félagsskapur af betri gerðinni.
Félagsskapur af betri gerðinni. Ljósmynd/Aðsend

Aðspurður hvernig hausinn sé eftir svona langa einveru segir Áskell að hann gæti alveg vanist þessu. „En ég neita því ekki að það verður óneitanlega gott að komast í vinnuna aftur og hitta vini og fjölskyldu,“ segir Áskell, sem starfar sem landvörður hjá Umhverfisstofnun.

Hægt er að fylgjast með Áskeli í sóttkvínni á Instagram.

Áskell.
Áskell. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is