Hlerar duttu úr loftinu í Bláa lóninu í skjálftanum

Bláa lónið með fjallið Þorbjörn á hægri hönd. Landris hefur …
Bláa lónið með fjallið Þorbjörn á hægri hönd. Landris hefur verið undir Reykjanesi við Þorbjörn. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var ekkert þægilegt,“ segir Þorfinnur Gunnlaugsson í samtali við mbl.is, en hann var staddur í matsal Bláa lónsins þegar kraftmikill jarðskjálfti varð á Reykjanesi í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni mældist hann 5,2 að stærð.

„Það skalf allt og nötraði þarna og starfsfólkinu stóð ekki á sama. Þetta var líka svo lengi,“ segir hann og lýsir því að hlerar úr loftræstikerfinu hafi dottið úr loftinu í gólfið.

Þorfinnur segist hafa ekki verið búinn undir skjálfta. „Maður var eiginlega búinn að gleyma þessu, það er svo langt síðan það hefur fundist skjálfti hérna.“ Hann segir þetta líklega hafa reynst verr í eldhúsinu og telur að erlendu starfsfólki hafi líklega brugðið mikið. „Það er ekki vant jarðskjálftum og fékk nett taugaáfall. Fólk fann vel fyrir þessu. […] Þetta er mjög óþægilegt.“

Hlerar loftræstingarinnar losnuðu í Bláa lóninu. mbl.is fékk ljósmyndina senda …
Hlerar loftræstingarinnar losnuðu í Bláa lóninu. mbl.is fékk ljósmyndina senda frá lesenda eftir birtingu fréttarinnar og var henni bætt við. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is