„Gott að koma bikarnum heim“

Ármann mundar hljóðnemann ásamt liðsfélögum sínum, Víkingi Leifssyni og Birtu …
Ármann mundar hljóðnemann ásamt liðsfélögum sínum, Víkingi Leifssyni og Birtu Líf Breiðfjörð Jónasdóttur. Þetta er í 21. sinn sem MR vinnur keppnina en hún hefur verið haldin 35 sinnum. mbl.is/Árni Sæberg

„Það hefur verið erfitt að horfa á skápinn tóman síðustu ár, og mjög gott að koma bikarnum heim á ný,“ segir Ármann Leifsson, fyrirliði Gettu betur-liðs MR sem bar sigurorð af Borgarholtsskóla í úrslitum keppninnar í gær. Skápurinn sem Ármann vísar til er sérstakur bikarskápur á þriðju hæð í Gamla skóla, aðalbyggingu MR ,en þar geyma MR-ingar verðlaunagrip keppninnar. Skápurinn hefur staðið tómur síðustu þrjú árin, nemendum til háðungar.

Fyrirkomulag keppninnar í gær var um margt óvenjulegt. Ákveðið var að halda keppn­ina án áhorf­enda vegna út­breiðslu kór­ónu­veirunn­ar og einungis voru nokkrar hræður í salnum, útvarpsstjóri, nokkrir fyrrverandi keppendur og örfáir fulltrúar liðanna tveggja. „Þetta var frekar skrítið. Maður er svo vanur öskrunum frá áhorfendum að þögnin gerði mig eiginlega stressaðri,“ segir Ármann. Hann segir keppnina hafa sýnt hve mikilvægir áhorfendur eru í Gettu betur. „Ég myndi ekki vilja gera þetta aftur svona.“

Þrátt fyrir áhorfendaleysi, tókst MR-ingum þó að fagna sigrinum. „Við héldum sigurpartí þar sem við buðum keppendum úr öðrum skólum og fleirum. Þar var steðjadansinn tekinn og fleira skemmtilegt,“ segir Ármann og útskýrir fyrir blaðamanni að þá sé rússneskt þjóðlag sungið á meðan keppendur, þjálfarar og gamlar kempur dansi í kringum hljóðnemann.

Fámennt en góðmennt var í salnum í úrslitum Gettu betur …
Fámennt en góðmennt var í salnum í úrslitum Gettu betur í gærkvöld en áhorfendafjöldi var takmarkaður sökum útbreiðslu kórónuveirunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Enginn afsláttur af náminu

Sú var tíðin að keppendur MR í Gettu betur fengu frjálsa mætingu í tímum meðan á undirbúningi stóð. Það breyttist þó er Yngi Pétursson lét af embætti rektors og við tók Elísabet Siemsen. Fá keppendur nú lítinn sem engan afslátt af náminu.

Aðspurður segir Ármann að á venjulegum degi mæti þau í skólann klukkan 8 og séu þar til 15. „Ég nýti hádegið í að fara yfir einhverja lista, til dæmis yfir embættismenn,“ segir Ármann. „Síðan tökum við 40 hraðapakka og glósum það sem við klúðrum. Svo er það bara að lesa.“ Hann viðurkennir að álagið taki sinn toll. Þeir sem eru að keppa fyrir MR eru oft orðnir mjög þreyttir þegar kemur að undanúrslitum og úrslitum. „Maður hefur klárlega þurft að láta námið sitja á hakanum, en það er þess virði.“

Þrátt fyrir álagið segir Ármann að liðsmenn hafi gaman af keppninni og gerir ekki ráð fyrir öðru en að þríeykið, hann, Birta Líf og Víkingur, verði öll með í keppninni að ári. „Það er dálítið erfitt að hætta í þessu núna þegar fólk býst við manni. Ætli við æfum ekki bara af krafti frá og með sumrinu og höfum þetta enn öruggara á næsta ári,“ segir Ármann sposkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert