Tilfelli kórónuveirunnar 161 talsins

Fimm ný tilfelli af COVID-19 sjúkdómnum voru greind á sýkla- …
Fimm ný tilfelli af COVID-19 sjúkdómnum voru greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítala nú í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fimm ný tilfelli af COVID-19-sjúkdómnum voru greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítala nú í kvöld. Heildarfjöldi staðfestra tilfella kórónuveirunnar er því 161.

Búið er að tala við viðkomandi einstaklinga en rakning smitanna er nýhafin að sögn Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns hjá ríkislögreglustjóra. 

Skimun fyrir kórónuveirunni hélt áfram á vegum Íslenskrar erfðagreiningar í dag en fyrstu niðurstöður liggja ekki fyrir. 



Vinna að úrlausnum í tengslum við samkomubann 

Helstu verkefni dagsins hjá almannavörnum sneru að því að vinna að frekari úrlausnum samkomubannsins sem tekur gildi eftir rúman sólarhring. 

„Við áttum svakalega góðan fund með fulltrúum kennara, bæði formanni Kennarasambandsins og félags grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og leikskólakennara og skólastjórafélagsins. Við fórum yfir stöðuna og ræddum hvernig þetta snertir skólana og áskoranir sem þetta fólk stendur frammi fyrir,“ segir Víðir. 

Víðir segir það síður en svo einfalt verkefni fyrir grunn- og leikskóla að takast á við samkomubannið. Ekki verður farið fram á lokun þeirra en skólarnir þurfa að starfa eftir ströngum reglum.

Fulltrúi kennara verður á upplýsingafundi almannavarna sem verður venju samkvæmt klukkan 14 á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert