Starfsmaður Alþingis smitaður af kórónuveirunni

Viðkomandi starfsmaður er nú í einangrun og á batavegi.
Viðkomandi starfsmaður er nú í einangrun og á batavegi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Starfsmaður Alþingis hefur greinst með kórónuveiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Þetta staðfestir Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis, í samtali við mbl.is. Viðkomandi hefur verið veikur og í fyrirskipaðri sóttkví síðustu daga en var að fá niðurstöður skimunar. Hann er nú kominn í einangrun og er á batavegi, að því er kemur fram á vef Alþingis.

Þá eru tveir starfsmenn skrifstofunnar í fyrirskipaðri sóttkví eftir að hafa verið í samskiptum við smitaða einstaklinga, en báðir þessir starfsmenn eru þó frískir. 

Ragna gerir ekki ráð fyrir því að þetta hafi áhrif á störf þingsins, en ýmsar ráðstafanir hafa verið gerðar á Alþingi til að reyna að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar þar innanhúss.

„Hluti fólks vinnur heima og aðrir eru á staðnum. Við vorum líka búin að gera ákveðnar breytingar hvað varðar mötuneyti og fleira. Fólk sækir sér mat í mötuneytið í bökkum og starfsmenn borða á skrifstofunni sinni og þingmenn hafa langt á milli sín. Við erum að skoða núna hvort ástæða er til að gera eitthvað enn meira.“

Hún segir rakningarteymi almannavarna eiga eftir að vinna sína vinnu en þar sem viðkomandi einstaklingur var í sóttkví sé ólíklegt að fleiri þurfi í sóttkví eftir samskipti við hann.

Þá eru einhverjir þingmenn og starfsfólk í sjálfskipaðri sóttkví eða smitvari vegna aðstæðna, ýmist af persónulegum heilsufarsástæðum eða vegna einhvers nákomins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert