Gáfu heimilisfólki á Hrafnistu 12 spjaldtölvur vegna heimsóknarbanns

Elín Eiríksdóttir á Hrafnistu var ekki lengi að hringja myndsímtal …
Elín Eiríksdóttir á Hrafnistu var ekki lengi að hringja myndsímtal í ættingja sína. Ljósmynd/Aðsend

„Við höfum starfað með Hrafnistu í um það bil 40 ár og reynt að gefa af okkur. Við höfum gefið þeim ýmsan búnað þegar þörf hefur verið á og höfum einnig reglulega spilað bingó með heimilisfólkinu og gefum af sjálfum okkur, því peningar eru ekki allt,“ segir Þorleifur Sigurðsson, formaður Lionsklúbbsins Ásbjörns, í samtali við mbl.is.

Um helgina afhenti klúbburinn heimilisfólki á Hrafnistu í Hafnarfirði tólf spjaldtölvur og heyrnartól og fjóra magnara sem gera heyrnarskertum kleift að nota búnaðinn.

Vegna ástandsins sem nú ríkir, kórónuveirufaraldurs og samkomubanns, er strangt heimsóknarbann í gildi á Hrafnistu og því gátu klúbbmenn ekki lengur spilað bingó með heimilisfólki. Þá hafa ættingjar ekki mátt koma í heimsókn síðan bannið tók gildi sem hefur reynst mörgum erfitt.

Búnaðurinn kom fólkinu gríðarlega vel enda tekur heimsóknarbannið töluvert á …
Búnaðurinn kom fólkinu gríðarlega vel enda tekur heimsóknarbannið töluvert á marga. Ljósmynd/Aðsend

Í ljósi þess ákváðu Ásbjarnarmenn að leggja höfuðið í bleyti og reyna að finna lausnir til að auðvelda heimilisfólkinu á Hrafnistu lífið. Úr varð að gefa því spjaldtölvur svo allir gætu átt samskipti við ættingja og vini sem ekki fá að heimsækja Hrafnistu.

Ekki var annað að sjá en allir væru himinlifandi með tæknibúnaðinn og að komast í almennileg samskipti við ættingja.

Hjördís Ósk Hjartardóttir, hjúkrunardeildarstjóri á Hrafnistu, og Harpa Björgvinsdóttir, deildarstjóri …
Hjördís Ósk Hjartardóttir, hjúkrunardeildarstjóri á Hrafnistu, og Harpa Björgvinsdóttir, deildarstjóri iðjuþjálfunar, með búnaðinn. Ljósmynd/Aðsend
Búnaðurinn var ekki af verri gerðinni.
Búnaðurinn var ekki af verri gerðinni. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka