Undirbúa stækkun Akureyrarflugvallar

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti um helg­ina aðgerðir …
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti um helg­ina aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar til að bregðast við efna­hags­leg­um áhrif­um af út­breiðslu kór­ónu­veirunn­ar. Stækkun Akureyrarflugvallar er þar á meðal. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stækkun við flugstöðina á Akureyri, stækkun á flughlaði vallarins og malbikun á Egilsstaðaflugvelli eru meðal framkvæmda sem ríkisstjórnin leggur til að hefjist nú þegar samkvæmt aðgerðum rík­is­stjórn­ar­inn­ar til að bregðast við efna­hags­leg­um áhrif­um af út­breiðslu kór­ónu­veirunn­ar, sem kynntar voru á laugardag. 

Frá þessu greinir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í færslu á Facebook síðdegis. Stefnt er að því að bjóða verkin út í vor og munu þau skapa um 40 ársverk hjá verktökum á svæðinu. 

Sigurður Ingi segir mikilvægt að bregðast hratt við en gera jafnframt langtímaáætlanir eins og kostur er í þessari erfiðu stöðu sem samfélagið glímir við. „Halda áfram að byggja upp vegi, flugvelli og hafnir svo samfélagið verði í stakk búið þegar Covid-19 faraldurinn verður um garð genginn. Þrátt fyrir hrun í ferðaþjónustunni er brýn þörf fyrir uppbyggingu innviða og eru flugvellir einn af lykilþáttum fjárfestingarátaksins,“ skrifar ráðherrann. 

Uppbygging Akureyrarflugvallar var ekki í fimm ára samgönguáætlun sem kynnt var í haust og sætti það mikilli gagnrýni fyrir norðan. Sigurður Ingi sagði á þeim tíma að fjármagn til uppbyggingar flugvallarins væri ekki í augsýn. 

Samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru um helgina er áformað að verja milli 500 til 600 milljónum í ár til undirbúnings verkanna þriggja. 

Sigurður Ingi segir annað átak hjá ríkisstjórninni í undirbúningi sem tekur við á árunum 2021-2023 og mun flýting þessara framkvæmda sem og annarra samgönguframkvæmda birtast þar. „Gerum það sem gera þarf og verum skynsöm.“

mbl.is

Kórónuveiran

29. mars 2020 kl. 13:53
1020
hafa
smitast
135
hafa
náð sér
25
liggja á
spítala
2
eru
látnir