Veðurstofan saknar félagsskaps almannavarna

Stórkostlegt útsýni í Neskaupstað. Fjölmargir tóku þátt í áskorun Veðurstofunnar …
Stórkostlegt útsýni í Neskaupstað. Fjölmargir tóku þátt í áskorun Veðurstofunnar á Facebook í gær og sendu myndir af veðrinu eins og það blasti við þeim út um gluggann. Ljósmynd/Facebook

Ófáar áskoranir og ganga nú manna á milli á samfélagsmiðlum til að létta fólki lundina í samkomubanninu. Á meðan sumir gera armbeygjur eða halda klósettrúllu á lofti leita aðrir að böngsum í gluggum. Veðurstofa Íslands lætur ekki sitt eftir liggja og óskaði eftir gluggaveðursmyndum frá fylgjendum sínum í gær. 

„Þetta var nú bara svona spjall á vinnustofunni hvernig við gætum dreift huganum hjá þjóðinni. Veðrið sameinar okkur, okkur hefur alltaf tekist að tala um veðrið,“ segir Haukur Hauksson, samskiptastjóri Veðurstofunnar, í samtali við mbl.is.  

Haukur segir að þar sem margir séu innandyra þessa dagana, ýmist við vinnu eða sóttkví, nema hvort tveggja sé, þótti það fyrirtaks hugmynd að nýta séríslenska fyrirbærið gluggaveður til að stytta fólki stundir. 

Snjóþungt á Bolungarvík í gær.
Snjóþungt á Bolungarvík í gær. Ljósmynd/Aðsend

Veðurstofan ákvað því að koma af stað myndasöfnun undir yfirskriftinni „gluggaveður“, þó ekki í hefðbundna skilningnum þar sem veður er fallegt út um gluggann að líta en ekki gott til útivistar, heldur til að sýna alveg hvernig veðrið kemur fyrir sjónir út um hina og þessa glugga í landinu. 

Ekki stóð á viðbrögðum og bárust myndir víðs vegar af landinu og meira að segja utan landsteinana. Veðurstofan hefur nú tekið saman helstu myndirnar sem má sjá hér fyrir neðan. 

Veðrið gleymist í umræðunni um kórónuveiruna

„Það er alltaf mikill áhugi á veðrinu og við erum alltaf þakklát þeim sem senda okkur ýmsan fróðleik sem hjálpar okkur við okkar vinnu,“ segir Haukur. 

Starfsfólk Veðurstofunnar eru alvant að vinna með áskoranir sem náttúruöflin bjóða upp á og eru sömuleiðis alvön að vinna með almannavörnum þó ekki hafi verið þörf á þeirra aðstoð í baráttunni gegn kórónuveirunni. 

Starfsmenn Landspítalans gáfu sér tíma til að líta út um …
Starfsmenn Landspítalans gáfu sér tíma til að líta út um gluggann og smella af einni mynd fyrir Veðurstofuna. Ljósmynd/Aðsend

„Við söknum félagsskaps almannavarna en við sækjumst ekki eftir þeim miklu áskorunum sem náttúran býður upp á. En við höfum reynt að gera það þegar þjóðin stendur frammi fyrir áskorunum að náttúran gefur okkur líka eitthvað fallegt og gott,“ segir Haukur. Þá segir hann að umræðan um veðrið, sem alla jafna er mjög mikil, hafi þurft að lúta í lægra haldi fyrir kórónuveirunni. „Okkur fannst sjálfsagt að stíga aðeins inn í umræðuna og fagna veðrinu og gefa okkur tækifæri til að tala aðeins um veðrið, sem við gleymum kannski í covid-umræðunni,“ segir hann og hlær.

Aðspurður hvort von sé á fleiri veðuráskorunum á næstu dögum segir Haukur: 

„Það er aldrei að vita, það er allavega að koma skemmtilega á óvart hversu viðbrögðin eru góð. Við erum að fá stikkprufur af veðri á einum degi. Þetta var skemmtileg veðurdagbók sem við fengum upp í hendurnar.“   

Eins og íslenskt og það gerist er það ekki? Svona …
Eins og íslenskt og það gerist er það ekki? Svona var um að litast á Akranesi í gær. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert