Óhefðbundnar fermingarmyndir í miðjum faraldri

Jón Þór gerir alveg ráð fyrir því að hinar óhefðbundu …
Jón Þór gerir alveg ráð fyrir því að hinar óhefðbundu myndir rati líka upp á vegg. Ljósmynd/Aðsend

Jón Þór Karlsson og fjölskylda hans fóru í heldur óvenjulega myndatöku í síðustu viku í tilefni þess að yngri dóttirin á heimilinu er að fara að fermast. Fermingunni sjálfri hefur verið frestað vegna kórónuveirufaraldurs og samkomubanns, en fjölskyldan ákvað engu að síður að fara í fermingarmyndatökuna á Ljósmyndastofu Oddgeirs í Reykjanesbæ og vera aðeins á léttu nótunum til að halda í gleðina.

„Yngri dóttir okkar er að fara að fermast og hún upplifir þetta ástand mjög sterkt. Hún var búin að vinna hellings undirbúningsvinnu sjálf, en hún er mjög samviskusöm. Það var því mjög svekkjandi fyrir hana, eins og aðra, að missa af þessum viðburði - allavega í bili. En við reyndum að gera eins gott úr því og hægt er, með því að fara allavega í myndatökuna,“ segir Jón Þór í samtali við mbl.is.

Jón Þór fékk þá hugmynd að það gæti verið sniðugt að gera eitthvað til minningar um ástandið og kom við í málningarverslun og keypti málningargalla. Svo átti hann gamlar grímur og hlífðargleraugu sem hann greip með.

Aldrei vita nema myndirnar fari upp á vegg

„Síðan fór bara hefðbundin myndataka fram, en ég var með dótið í poka og þegar ég tók það upp þá var ljósmyndarinn pínu hissa. Hann tók samt vel í þetta og stillti bara aftur upp í hefðbundna fermingarmyndatöku.“

Fjölskyldan brosti einlægt á bakvið grímurnar.
Fjölskyldan brosti einlægt á bakvið grímurnar. Ljósmynd/Aðsend

Myndirnar sem fylgja hér með eru reyndar ekki hin hefðbundna uppstilling, en þær tók ljósmyndarinn á símann eftir tökuna. „Í myndaalbúminu okkar sem við komum til með að fletta í gegnum í framtíðinni, þar verða myndir af okkur prúðbúnum og líka þessar myndir, þar sem er bara stillt upp eins.“ Jón Þór segir aldrei að vita nema hinar óhefðbundnu myndir rati líka upp á vegg heima hjá þeim.

„Við eigum að halda brosinu eins lengi og hægt er“

„Þetta var eiginlega bara skyndiákvörðun. Ég kom bara við í búðinni og keypti einfalda samfestinga og svo settum við upp grímur og gleraugu sem ég átti úti í bílskúr. Þetta var bara svona: gerum þetta, prófum þetta. Síðan kemur maður heim og fer að velta fyrir sér hvað er viðeigandi. Við þekkjum öll fólk í sóttkví og ég er búinn að vera í samskiptum við félaga minn sem er smitaður en gengur ágætlega,“ útskýrir Jón Þór sem var þá á báðum áttum með hvort þau hefðu kannski gengið of langt, enda vandmeðfarið að vera með gamanmál á slíkum tímum.

Þar fyrir utan er hann líka í lögreglunni á Suðurnesjum og starfar í flugstöðinni. „Við höfum fengið okkar snertingu af þessu, þó það sér rólegt yfir núna. Ég hugsaði því hve langt maður mætti ganga.“

Hann prófaði að senda nokkrum vel völdum félögum sínum myndirnar til að sjá viðbrögðin. Flestir tóku vel í myndirnar og Jón Þór ákvað því að birta þær einnig á Facebook-síðu sinni þar sem þær vöktu mikla lukku.

„Við eigum að halda brosinu eins lengi og hægt er. Við brostum alveg bakvið grímurnar, það var alveg einlægt,“ segir Jón Þór að lokum.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman