Tveir til viðbótar á gjörgæslu

Tveir hafa verið lagðir inn á gjörgæslu á síðasta sólarhringnum.
Tveir hafa verið lagðir inn á gjörgæslu á síðasta sólarhringnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir einstaklingar bættust á síðasta sólarhring í hóp þeirra sem nú eru á gjörgæslu Landspítalans vegna kórónuveirunnar. Samtals eru núna átta á gjörgæslunni. Þá voru fjórir lagðir inn á spítalann í gær af sérstakri covid-göngudeild. Samtals eru 827 innritaðir á göngudeildina vegna smits, auk 66 barna sem eru í eftirliti hjá barnaspítalanum. Þetta staðfestir Ragnar Freyr Ingvarsson, yfirlæknir á deildinni, í samtali við mbl.is, en fyrst var greint frá á Vísi.

Ragnar segir að öll börnin 66 sem séu smituð séu einkennalítil og ástand þeirra nokkuð gott.

Í gær voru 963 staðfest smit á landinu, en Ragnar segir að 50-60 hafi bæst við síðasta sólarhringinn. Þá hafi 20 verið útskrifaðir og segir hann að allt útlit sé fyrir að 67 verði útskrifaðir innan þriggja daga.

Göngudeildin hefur eftirlit með þeim fullorðnu einstaklingum sem smitast af veirunni, en sérstakt símaver sér um að hafa samband við alla sem greinast og meta hvaða skref verða tekin næst. Þá fer skoðun fram á vegum deildarinnar. Börn sem eru smituð af veirunni eru hins vegar í eftirliti hjá barnaspítalanum að sögn Ragnars, en ef þau þurfa skoðun koma þau á göngudeildina ásamt barnalæknum og hjúkrunarfræðingum sem sérhæfð eru í barnalækningum, en Ragnar segir að þar sé allur búnaður sem þurfi varðandi sóttvarnir við slíka skoðun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert