Konur haldi sig heima eftir 36. viku

Frá blaðamannafundi almannavarna í dag.
Frá blaðamannafundi almannavarna í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Konum, sem gengnar eru lengra en 36 vikur, er bent á að halda sig heima. Þetta sagði Alma Möller landlæknir á blaðamannafundi Almannavarna í dag. Alma sagði að byggt væri á erlendum leiðbeiningum. „Það er þó ekkert sem bendir til að konur [á meðgöngu] smitist frekar eða verði veikari,“ sagði Alma. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði þessa ráðstöfun einkum tekna til að tryggja að konur bæru ekki með sér smit inn á fæðingardeild.

„Við höfum lagt gríðarlega áherslu á að fólk í sóttkví fái nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.“ Þetta sagði Alma spurð hvort konur í sóttkví gætu eftir sem áður sótt tíma í fósturskimun (sónar).

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði að þungaðar konur í sóttkví skyldu hafa samband við kvennadeildina. Aðspurður sagðist hann ekki vita nein dæmi þess að fresta hefði þurft tímum fram yfir 22. viku, en þungunarrof er ekki heimilt umfram þann tíma.

Meðgöngu- og sægurlegudeild Landspítala var í gær lokað fyrir gestakomum nýbakaðra feðra sem annarra, en greint var frá því í gær að faðir sem hefði verið í heimsókn þar um nokkurra daga skeið hefði greinst með kórónuveiruna. Fimm starfsmenn spítalans voru í kjölfarið sendir í sóttkví en ekki hafa komið upp fleiri smit á deildinni.

„Við teljum að til þess að vernda þessa mikilvægu starfsemi sem er ekki mjög mannmörg er mjög mikilvægt að við þrengjum heimsóknir eins og við höfum gert,“ sagði Páll. Hann sagði þó að ekki kæmi til greina að loka fæðingardeild fyrir foreldri.

mbl.is