Lést innan við sólarhring eftir útskrift af bráðamóttöku

Konan var í nokkra klukkutíma á bráðamóttökunni vegna gruns um …
Konan var í nokkra klukkutíma á bráðamóttökunni vegna gruns um blóðsýkingu en var send heim í hjólastól. Morguninn eftir lést hún á heimili sínu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kona á fimmtugsaldri sem var útskrifuð af bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi í síðustu viku lést innan við sólarhring eftir heimkomu. Málið er komið í farveg hjá spítalanum og rannsakað verður hvort álag á spítalanum tengist dauðsfallinu með einhverjum hætti. RÚV greinir frá. 

Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, gat ekki staðfest í samtali við mbl.is hvort tilkynning um andlátið hefði borist embættinu. 

Landspítalinn tjáir sig ekki um mál einstakra sjúklinga en samkvæmt heimildum fréttastofu RÚV var konan flutt með sjúkrabíl á bráðamóttöku síðasta fimmtudag. Talið var að hún væri með blóðsýkingu en hún var máttvana og átti erfitt með gang og að hreyfa hendur. Konan var í nokkra klukkutíma á bráðamóttökunni en var send heim í hjólastól. Morguninn eftir lést hún á heimili sínu. 

Í skriflegu svari Landspítalans segir að álag á bráðamóttöku hafi verið með minna móti frá því að kórónuveirufaraldurinn hóf að breiðast út hér á landi en það verði skoðað hvort einhver álagstoppur hafi haft áhrif í þessu tilviki.

mbl.is