Líður eins og hún sé stödd í kvikmynd

Þóra Gunnlaugsdóttir hjúkrunarfræðingur og aðstoðardeildarstjóri gjörgæslunnar.
Þóra Gunnlaugsdóttir hjúkrunarfræðingur og aðstoðardeildarstjóri gjörgæslunnar. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er mjög stórt verkefni en það gengur mjög vel,“ segir Þóra Gunnlaugsdóttir hjúkrunarfræðingur og aðstoðardeildarstjóri á gjörgæslunni í Fossvogi. Núna er unnið að því hörðum höndum að því að stækka gjörgæsluna með þvi að nýta vöknunardeild spítalans fyrir gjörgæslusjúklinga.  

Á þessari deild eru þeir allra veikustu af COVID-19 sjúkdómnum sem kórónuveiran veldur og eru meðal annars tengdir öndunarvél. Nú er meðal annars verið að, stúka af, smíða milliveggi og koma upp aðstöðu sem áður rúmaði 6 sjúklinga en þar munu alls 18 manns geta legið. Við uppsetninguna er gert ráð fyrir að starfsfólk fari í hlífðarfatnað á einum stað og úr honum á öðrum.

Í nótt þegar Þóra lauk sinni kvöldvakt voru þegar 14 til 15 stæði tilbúin. Áfram hélt vinnan í dag og eru smiðir, tæknifólk, rafvirkjar og fleiri starfsmenn frá stoðsviðum spítalans að undirbúa þessi pláss. Hún segist ekki geta sagt nákvæmlega til um hvenær aðstaðan verður klár en allir eru að leggja sitt af mörkum. 

Erfitt að vinna í búningum en geta knúsast í þeim

„Mér líður eiginlega eins og ég sé stödd í kvikmynd,“ segir Þóra létt í bragði þegar hún lýsir vinnuaðstæðunum. Allt heilbrigðisstarfsfólk á hennar deild er í hlífðarfatnaði. Hún segir ekki beint þægilegt að klæðast slíkum búningi í vinnunni.  

„Þetta er frekar erfitt. Þeir eru heitir og maður þekkir ekki strax vinnufélagana. Við reynum að merkja búningana svo við þekkjum hvort annað. Þegar við erum komin í búninginn þá getum við alveg knúsað hvort annað. Ég tek það fram að allt starfsfólkið er frábært og hefur staðið sig gríðarlega vel,“ segir hún og bætir við „ég vil svo sjá að ríkið semji við okkur hjúkrunarfræðinga. Við höfum verið samningslaus alltof lengi.“ 

Margt starfsfólk vinnur á deildinni og segir Þóra að vel hafi gengið að manna stöður. Margir sem störfuðu áður á öðrum deildum t.d. skurðstofum hefur verið flutt á þessa deild. „Þetta er mannfrekt. Það er alltaf einn hjúkrunarfræðingur á hvern sjúkling og tveir deildarlæknar til taks deildinni og tveir sérfræðingar og einn á bakvakt,“ útskýrir Þóra. Miðað er við að hver starfsmaður sé ekki lengur en 3 tíma í búningnum og þá þurfa að vera hjúkrunarfræðingar til að leysa af. Tetra-talstöðvar eru notaðar til samskipta milli starfsfólks.  

Flutningur sjúklinga með COVID-19 sjúkdóminn á milli deilda á spítalanum er býsna flókinn, að sögn Þóru. Tryggja þarf að gangar séu tómir, lyftan auð o.fl. þess háttar. Auk þess þarf að þrífa allt hátt og lágt eftir flutninginn. 

Þóra segir starfsfólk hafi verið nokkuð vel undirbúið fyrir kórónuveiruna. Því séu þau vel í stakk búinn til að takast á við aukið álag. Bakvarðasveitin hafi einnig komið sterkt inn. 

Spurð hvernig hún hlúir að sjálfri sér á þessum krefjandi tímum segist hún reyna að hvíla sig vel eftir vaktina, vera með fjölskyldunni, borða hollt og hreyfa sig. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert