Sóttvarnaráð fundar síðar í vikunni

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og ritari sóttvarnaráðs segir ráðið koma saman …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og ritari sóttvarnaráðs segir ráðið koma saman til fundar síðar í vikunni. Ljósmynd/Lögreglan

Sóttvarnaráð, sem mótar stefnu í sóttvörnum og er heilbrigðisyfirvöldum til ráðgjafar um aðgerðir til varnar útbreiðslu smitsjúkdóma, mun koma saman fundar síðar í vikunni. Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi vegna kórónuveirufaraldursins.

Sjö eiga sæti í sóttvarnaráði en auk þess er sóttvarnalæknir ritari þess. Síðast þegar sóttvarnaráð kom saman, 14. febrúar, var aðgerðaáætlun vegna kórónuveirunnar rædd og fékk Þórólfur Guðnason þá „fullan stuðning við þær aðgerðir sem planaðar voru.“

Síðan þá hefur Vilhjálmur Arason heimilislæknir, sem situr í sóttvarnaráði, óskað eftir því að ráðið komi aftur saman til fundar meðal annars til að ræða hvort að rétt sé að halda skólum og leikskólum opnum að meðan kórónuveirufaraldurinn gengur yfir. „Það eru ný vísindi fyrir mér ef faraldur eins og þessi dreifist ekki mest meðal barna,“ sagði hann í samtali við Morgunblaðið um helgina.

Neikvæðar afleiðingar lokunar skóla vega þyngra

Í skriflegu svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn mbl.is um hvort að tilefni sé til að kalla ráðið saman til að ræða skólahald segir ráðherra að í þeim málum sem og öðrum hafi verið farið eftir aðgerðum sóttvarnalæknis.

„Lokun grunnskóla og leikskóla hefur margvíslegar neikvæðar afleiðingar fyrir börnin og foreldra þeirra, ekki síst foreldra sem vinna í heilbrigðiskerfinu,“ segir í svarinu.

„Þessar neikvæðu afleiðingar hafa hingað til þótt vega þyngra við mat á því hvort loka beri þessari starfsemi, sérstaklega þar sem upplýsingar um COVID19 faraldurinn bæði frá Kína og hér á landi, benda ekki til að börn séu mikilvægur smitberi. Sóttvarnarlæknir metur hvort kalla beri saman sóttvarnarráð,“ segir þar ennfremur.

Nú hefur sóttvarnalæknir staðfest að ráðið muni koma saman til fundar síðar í vikunni en nákvæm tímasetning liggur ekki fyrir.

mbl.is