„Það þurfa allir að fara varlega“

Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans. Ljósmynd/Lögreglan

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að 186 starfsmenn spítalans séu nú í sóttkví og 36 eru í einangrun. „Það hefur aftur fækkað mikið í sóttkví og er það fagnaðarefni.“

Þetta kom fram á daglegum upplýsingafundi almannavarna og landlæknis varðandi útbreiðslu kórónuveirunnar. 

Fjörutíu eru núna inniliggjandi með staðfest COVID-smit, þar af 11 á gjörgæslu. Þá eru einnig fimm aðrir innlagðir með grun um smit sem á eftir að staðfesta. Þá eru 19 sjúklingar í sóttkví.  Páll segir að göngudeild COVID-19 sé nú með 926 einstaklinga í eftirliti og þar af 89 börn. 

Hann sagði jafnframt, að langflestir þeirra sem liggja á gjörgæsludeild spítalans væru á öndunarvél og væru býsna veikir. „Hugur okkar er auðvitað hjá því fólki og aðstandendum þeirra.“

Um væri að ræða einstaklinga sem væru frá fimmtugs- upp í áttræðisaldur og tók Páll fram að þetta væri brýning um það að yngra fólk geti líka veikst alvarlega. „Það þurfa allir að fara varlega.“

Fólk lengi á gjörgæslu og á öndunarvél

Páll segir ennfremur að þetta muni verða áskorun. „Við vitum það að fólk er lengi á gjörgæslu og öndunarvél og við erum þegar farin að huga að framhaldinu um það, hvernig við getum þá skipulagt okkar gjörgæslu og síðan fólk sem þarf jafnvel að vera í öndunarvél í einhvern tíma en þarf ekki alveg gjörgæslumeðferð í framhaldinu.“

Spítalinn sé nú með 18 gjörgæslurými í Fossvogi og þarf sé tveimur rýmum haldið fyrir aðra hluti. 

„Síðan vorum við með hugmyndir um að það að opna, eða taka hluta, af skurðstofunum í Fossvogi undir gjörgæslurými líka. En niðurstaðan núna í hádeginu á fundi viðbragðsstjórnar og farsóttanefndar var að það sé vænlegra að þegar við erum búin að nýta rýmin í Fossvogi, og jafnvel áður en þau verða alveg fullnýtt, að þá tökum við hluta af gjörgæslunni á Hringbraut undir COVID-veika.“

mbl.is