Framleiddu hjúpa til að flytja smitaða

Spánnýjir hjúpar frá Össur á leið til Landspítalans.
Spánnýjir hjúpar frá Össur á leið til Landspítalans. Ljósmynd/Aðsend

Össur mun í dag afhenda Landspítalanum tvo flutnings- og einangrunarhjúpa, svokallaða, en um er að ræða þriðja og fjórða hjúpinn sem Össur framleiðir fyrir Landspítalann vegna kórónuveirunnar. Í samtali við mbl.is segir Edda H. Geirsdóttir, forstöðumaður samskiptasviðs Össurar, að Össur hafi aldrei framleitt neitt líkt umræddum hjúpum, en slíkir snillingar starfi hjá Össuri að áður en langt um leið voru fyrstu hjúparnir komnir í hendur Landspítalans.

„Þetta er notað til þess að flytja smitaða sjúklinga á milli staða. Bæði innan spítalans, að mér skilst, og svo líka á milli landshluta,“ segir Edda og segir einn hjúp nú á leið til Akureyrar. „Til dæmis yrðu sjúklingar sem flytja þyrfti með sjúkraflugi settir í slíkan hjúp,“ bætir hún við og segir: „Búið er að framleiða fjóra og nú er verið að framleiða þann fimmta sem verður afhentur fyrir páska.“

„Tóku af skarið“

„Landspítalinn leitaði til okkar til að athuga hvort við hefðum hugsanlega einhvern aðgang að sérfræðiþekkingu og búnaði sem gæti nýst til að framleiða slíkt. Það eru nokkrir snillingar hjá okkur sem eru allt í öllu og mjög færir í framleiðsluaðferðum og efnum. Þeir bara tóku af skarið og unnu þetta í mjög nánu samstarfi við starfsfólk spítalans sem leiðbeindi,“ segir Edda um aðdraganda þess að Össur fór að framleiða hjúpana en bætir við að vitaskuld séu til viðlíka hjúpar sem hægt hafi verið að nota sem fyrirmyndir.

Edda segir að starfsmenn Össurar hafi stokkið til og ráðist …
Edda segir að starfsmenn Össurar hafi stokkið til og ráðist í verkefnið með yfirveguðum hætti. Ljósmynd/Aðsend

Aðspurð segir Edda að þó að fyrirmyndirnar hafi verið til sé auðvitað heilmikið mál að framleiða svona flutnings- og einangrunarhjúpa. „Þetta þarf náttúrlega að vera mjög öruggt hvað allar smitvarnir varðar,“ segir Edda og segir að starfsfólk Landspítalans hafi séð um að leiðbeina og fylgst grannt með svo allt slíkt væri með besta móti. 

Vilja leggja sitt af mörkum

Össur gefur alla sína vinnu sem fer í framleiðslu hjúpanna og segir Edda að hún viti ekki til þess að farið hafi fram nokkur umræða um annað. „Það lá svo sjálfsagt fyrir að við myndum gera það. Eins og allir aðrir viljum við leggja okkar af mörkum. Það er gríðarlega ánægjulegt fyrir okkur að geta lagt þessu lið og ánægjulegt að sjá hvernig okkar starfsfólk hefur stokkið til og brugðist við með yfirveguðum hætti, og framleitt þessa góðu græju.“

mbl.is

Kórónuveiran

31. maí 2020 kl. 15:31
2
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir