Mokstur gæti tekið einhvern tíma

Hellisheiði er opin fyrir umferð til vesturs en búið er …
Hellisheiði er opin fyrir umferð til vesturs en búið er að opna Sandskeið og Þrengsli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veður er víðast hvar gengið niður og mokstur hafinn eða að hefjast á flestum leiðum. Ágætis ferðaveður verður í dag en einhvern tíma gæti tekið að moka lengri leiðir, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.

Stór hluti landsins var ófær í gærkvöldi þegar óveður gekk yfir landið.

Hellisheiði er opin fyrir umferð til vesturs en búið er að opna Sandskeið og Þrengsli. Ófært er um norðanverðan Hvalfjörð en þungfært að sunnanverðu.

Unnið er að mokstri á Fróðárheiði, Vatnaleið, Bröttubrekku og Holtavörðuheiði. Flestar leiðir á Vestfjörðum eru enn ófærar en á norðanverðum kjálkanum er enn bálhvasst.

Leiðir um Vatnsskarð og Þverárfjall eru lokaðar en unnið er að mokstri á Öxnadalsheiði sem og stofnleiðum á austurhluta landsins. 

Suðurlandsvegur er greiðfær, frá Hveragerði og alla leið austur á Fáskrúðsfjörð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert