Óþarfi að SÍ greiði minna til hjúkrunarheimila núna

Helga Vala Helgadóttir formaður velferðarnefndar.
Helga Vala Helgadóttir formaður velferðarnefndar. mbl.is/Hari

„Við viðruðum áhyggjur af stöðu hjúkrunarheimila. Það virðast vera deilur við Sjúkratryggingar Íslands varðandi greiðslur. Við hljótum að vera sammála um að það sé óþarfi á þessum tímapunkti,“ segir Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, eftir fund nefndarinnar í morgun. Á fundinn mætti meðal annars heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir.   

Deilan snýst um dagdvöl hjúkrunarheimilanna. Dagdvölin er áfram rekin þar sem dagdvalarrými er utan hjúkrunarheimilis, í öðru húsnæði. Hún er einnig rekin áfram þar sem hægt er að nota sérinngang. Þar sem dagdvölin er í sama húsnæði fellur hún niður með venjubundnum hætti. Hluti þeirra sem sækja þjónustuna alla jafna má það ekki núna heilsu sinnar vegna, vegna tilmæla frá sóttvarnalækni.

Ekki fengið nein svör

„Sjúkratryggingar reikna það sem svo að þjónustan sé ekki nýtt og því er ekki borgað fyrir hana. Það er ekki rétt því það er verið að veita þjónustuna og jafnvel meiri en áður. Það er verið að leggja á sig meira verk en ekki verið að borga fyrir það,“ útskýrir Helga Vala. 

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa bent á þetta og óskað eftir því að ekki sé verið að draga saman tekjur til þeirra á sama tíma og kostnaður vegna kórónuveirunnar hefur aukist umtalsvert. Talsverður kostnaður er meðal annars vegna sóttkvíar starfsfólks og einangrunar sem og breytts skipulags á allri starfseminni. Heimsóknabann er í gildi á öllum dvalar- og hjúkrunarheimilum landsins. Þetta kallar á breyttar áherslur á starfseminni.  

„Auðvitað græjum við þetta til. Við látum ekki hjúkrunarheimilin lenda í greiðsluvanda í þessu ástandi,“ segir Helga Vala. Hún furðar sig á því að dvalar- og hjúkrunarheimilin hafi ekki fengið skýr svör frá heilbrigðisráðuneytinu þar sem samtökin hafa bent á þennan vanda sem hefur skapast vegna kórónuveirufaraldurins. Samtökin hafa sent tvö bréf til ráðuneytisins en ekki fengið nein svör.

Ræddu um hlutabætur

Á fundinum var einnig rætt um hlutabætur, sérstaklega fyrir þann hóp sem hlutabæturnar ná ekki til eins og staðan er núna. Það eru þeir sem eru eldri en 70 ára og yngri en 18 ára sem eru á vinnumarkaði. Helga Vala segir gott samtal hafa átt sér stað varðandi úrlausn fyrir þennan hóp.

mbl.is