Vonast eftir niðurstöðu fyrir páska

Eybjörg H. Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustur.
Eybjörg H. Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustur. mbl.is/Hari

„Þetta virðist vera í vinnslu innan stjórnkerfisins. Vonandi verður komin niðurstaða í þessu máli fyrir páska,“ segir Eybjörg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækja í velferðarþjónustu.

Samtökin hafa sent tvö bréf til heilbrigðisráðherra þar sem bent er á að Sjúkratryggingar hafi skert greiðslur til þeirra vegna þess að dagdvalarrýmum hafi ýmist verið lokað eða starfsemin skert vegna kórónuveirufaraldursins. Á sama tíma hafi verkefni aukist og starfsemi heimilanna orðið flóknari. Samtökin hafa óskað eftir því að stjórnvöld taki tillit til þess og komi til móts við þau.

Málið var tekið fyrir á fundi velferðarnefndar í gærmorgun þar sem meðal annars Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fór yfir þetta mál og ýmis önnur. Að þeim fundi loknum sagði Helga Vala Helgadóttir, formaður nefndarinnar, að þetta væri eitt af þeim málum sem þyrfti að leysa. „Auðvitað græj­um við þetta til. Við lát­um ekki hjúkr­un­ar­heim­il­in lenda í greiðslu­vanda í þessu ástandi,“ sagði hún ennfremur. 

Eftir fundinn barst samtökunum tölvupóstur frá heilbrigðisráðherra og forstjóra Sjúkratrygginga Íslands. Þar kom fram að skilningur væri á þessari stöðu sem upp væri komin hjá hjúkrunarheimilum og dagdvölum. Unnið væri að því að finna leiðir til að koma til móts við heimilin með þeim hætti að faraldurinn truflaði ekki þessa mikilvægu þjónustu og yrði ekki til að skaða rekstrargrundvöll þessarar einingar til framtíðar.  

Í dag klukkan 13 verður fundur hjá samstarfsnefnd þjónustusamnings hjúkrunarheimila. Eybjörg situr þann fund auk annarra hagsmunaaðila. Á honum verður farið yfir útfærslur á því hvernig stjórnvöld hyggjast koma til móts við starfsemina á meðan þetta ástand ríkir. 

Hún segist vongóð um að heppileg lausn finnist.

mbl.is