Gott samstarf heldur áfram

Náin samvinna Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna vegna kórónuveirunnar heldur áfram.
Náin samvinna Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna vegna kórónuveirunnar heldur áfram. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Á fjarfundi utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8) sem fram fór í gærmorgun kom fram skýr vilji til áframhaldandi náins samstarfs þessara ríkja við þær aðstæður sem nú eru uppi. Ríkin hafa verið í nánu samstarfi undanfarnar vikur, einkum varðandi heimflutning á ríkisborgurum sem hafa verið strandaðir um víða veröld.

Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins. 

Á fundinum báru utanríkisráðherrarnir saman bækur sínar um stöðu COVID-19-faraldursins og til hvaða ráðstafana hefur verið gripið, bæði hvað varðar sóttvarnir og efnahagsaðgerðir í hverju ríki. Fram kom ríkur vilji til þess að leysa í sameiningu þau vandamál sem kunna að koma upp vegna lokunar landamæra og til þess að vera í góðu sambandi um frekari aðgerðir.

„Samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna er okkur Íslendingum mjög mikilvægt. Það hefur þegar sannað gildi sitt hvað varðar aðstoð við Íslendinga erlendis og fjölmargir Íslendingar notið góðs af því öryggisneti sem lagt hefur verið út.“ Þetta er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra.

mbl.is