Veiran álagspróf á íslenska innviði

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að kórónuveirufaraldurinn hafi verið öllum mikið lærdómsferli. 

„Þetta er álagspróf á innviði íslensks samfélags. Þar sem við erum stödd núna lítur út fyrir það að Ísland komi til með að geta sagt þá sögu að við stóðumst það álag. En það er ekki búið,“ sagði Svandís á blaðamannafundi sem fór fram í Þjóðmenningarhúsinu í hádeginu, en þar var farið yfir næstu aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins. 

Svandís hrósaði og þakkaði Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni, Ölmu D. Möller landlækni og Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni fyrir að vel unnin störf á daglegum upplýsingfundum „þríeykisins“. „Það hlutverk hefur verið okkur öllum algjörlega ómetanlegt. Ekki bara í því að gefa okkur upplýsingar dagsins, heldur að mennta samfélagið. Upplýsa okkur frá degi til dags um það hvað er þetta sem er við að eiga, viðurkenna að það eru ekki svör við öllum spurningum til og hafa bæði þrek og húmor til þess að tala kjark í þjóðina á þessum furðulegu tímum.“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á fundinum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Eitt stærsta verkefni samfélagsins

Svandís tók einnig fram, að glíman við veiruna væri sameiginlegt verkefni samfélagsins.

„Þetta er sennilega eitt stærsta verkefni sem við höfum tekist á hendur sem samfélag. Við höfum notið þess, að hluta til, að vera lítið samfélag. Að vera fámennt samfélag, að vera eyríki, að vera samfélag þar sem við komum upplýsingum hratt og vel á framfæri þar sem við höfum það svolítið í okkar genaminni — liggur mér við að segja — að við getum staðið saman þegar á móti blæs. Það höfum við oft gert. Við erum í návígi við náttúruógnir oft og hamfarir, og þá hefur það komið sér vel að geta snúið bökum saman,“ sagði ráðherra. 

Veiran býr til tímalínuna

„Eins og einhver sagði, stjórnmálamenn búa ekki til tímalínuna núna. Það er veiran sem gerir það,“ sagði Svandís og tók fram að það hefði verið áskorun fyrir stjórnamálamenn sem væru vanir því að halda blaðamannafundi um tímalínur. 

„Núna höfum við kannski ekki alla tímalínuna en við vitum nokkurnveginn hvar við erum stödd og við vitum það núna að við erum tilbúin að segja hvað gerist 4. maí,“ sagði Svandís. 

„Það hefur verið okkar gæfa hingað til að fara að ráðum okkar besta fólks. Við ætlum að halda því áfram. Við ætlum að halda áfram að láta ekki gliðna á milli þessarar forystu sem hér er og hinnar pólitísku forystu. Við ætlum að verða samferða í gegnum þetta. Eins og við gerum ráð fyrir því að samfélagið treysti því sem við erum að gera þá ætlum við líka að treysta hvert öðru. Og þar með að halda áfram að byggja næstu skref á trausti innan samfélagsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert