Framkvæmdir fyrir 450 milljónir

Mósaíkverk Gerðar Helgadóttur á Tollhúsinu.
Mósaíkverk Gerðar Helgadóttur á Tollhúsinu. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Áfram verður unnið við að endurgera Tryggvagötuna í sumar samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg.

Frá endurgerðu Bæjartorgi og Steinbryggju verður haldið áfram til vesturs að Naustum. Naustin verða einnig endurgerð frá Tryggvagötu að Geirsgötu. Að ári er svo áætlað að vinna síðasta áfangann frá Naustum að Grófinni.

Borgarráð veitti í gær heimild til útboðs framkvæmda. Gert er ráð fyrir að tilboð í verkefnið verði opnuð í maí og verktaki geti hafið störf í júní. Áætlað er að framkvæmdirnar við endurgerð Tryggvagötu frá Pósthússtræti að Grófinni muni kosta 450 milljónir króna. Verkið er unnið í samstarfi við Veitur samkvæmt fréttatilkynningu frá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar.

Tryggvagata eftir breytingar.
Tryggvagata eftir breytingar. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

„Mósaíkverk Gerðar Helgadóttur á Tollhúsinu mun að loknum framkvæmdum fá að njóta sín betur en áður. Undir listaverkinu verður torg sem liggur einstaklega vel við sólu og hentar því vel sem dvalarsvæði fyrir vegfarendur. Á svæðinu verða einnig litlir þokuúðarar sem bjóða upp á leik og veita svæðinu ákveðna dulúð.

Mósaíkmyndin á suðurhlið Tollhússins var sett upp fyrir nærri hálfri öld, sumarið 1973. Arkitekt hússins, Gísli Halldórsson, sagði þegar verkið kom til landsins, að myndin lyfti upp svipnum á Tryggvagötunni. Það eru orð að sönnu og mun hún gera það enn betur að framkvæmdum loknum. Listaverkið verður lýst upp og fá mósaíksteinarnir að njóta sín betur en áður á þessum 142 m2 fleti.

Gerður var brautryðjandi í þrívíðri abstraktlist hér á landi og einnig frumkvöðull í glerlist. Listakonan lést tveimur árum eftir að tollhúsverkið var klárað, aðeins 47 ára gömul. Minning hennar mun lifa áfram í listaverkinu, nú við fallegt, gróðursælt og sólríkt torg,“ segir í fréttatilkynningu frá borgaryfirvöldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert