Óvænt hvað tengslin eru djúp

„Þetta er algjörlega nýr heimur og það kemur mér á óvart hvað tengslin geta verið djúp,“ segir Auður Axelsdóttir, framkvæmdastjóri Hugarafls, en starf samtakana fer nú að miklu leyti fram í gegnum fjarfundarbúnað þar sem skjólstæðingar fá aðstoð með sálræn vandamál. Með aðstoð tækninnar hefur verið hægt að taka á móti nýju fólki í starfinu og ekki síst úti á landi, sem Auður segir sérstaklega ánægjulegt.

Í starfi Hugarafls er mikil áhersla lögð á persónulega aðstoð á jafningjagrundvelli við fólk sem á við geðræn vandamál að stríða. Þegar ljóst var að loka þyrfti nýrri aðstöðu samtakanna í Lágmúla í samkomubanni þurfti að leita leiða til að halda starfinu gangandi á þessum krefjandi tímum þar sem andlegt álag er auðvitað mikið.

Auður segir þó að unga fólkið, svokallaðir Unghugar, hafi ekki verið lengi að finna lausnirnar og nú fari persónuleg viðtöl og stærri fundir fram á netinu. Jafnframt er opið streymi undir forskriftinni Hugarró haldið alla föstudaga þar sem ýmis málefni tengd geðheilsunni eru í brennidepli. Fólki gefst þá færi á að koma spurningum og vangaveltum á framfæri sem reynt er að svara í beinni útsendingu. 

Thelma Ásdísardóttir, ráðgjafi og stofnandi Drekaslóðar, sat fyrir svörum á föstudaginn og hafa vel á fimmta þúsund manns horft á samtalið. Hægt er að sjá öll erindin sem hafa verið haldin hér.

Þunginn eykst í haust

Þrátt fyrir ýmsar vísbendingar um að ástandið hafi áhrif á geð landsmanna segir Auður að augljóslega séum við skammt komin hvað það varðar. „Þetta fer rólega af stað finnst mér. Við erum ekki búin að sjá hversu stór þessi hópur er sem leitar sér hjálpar. Hann er rétt að byrja að leita sér aðstoðar núna og við höldum að það verði meira í haust,“ segir Auður. Þá skýrist myndin hjá mörgum hvað varðar atvinnu og nám. Þá er hættara við að fólk fari að finna fyrir vonleysi og vanlíðan.

Auður segir það líka áhugavert að fólk sem sækir sér aðstoð hjá Hugarafli finni ákveðinn styrk í ástandinu sem nú er í þjóðfélaginu og víða um heim. Óróleikinn geti verið valdeflandi, fólki finnist það alveg geta tekist á við það sem er að gerast og sjái ýmislegt jákvætt við þennan tíma sem fólki gefst nú til að eyða með fólkinu sínu eða til að velta fyrir sér stöðu sinni í lífinu.

Auður Axelsdóttir er framkvæmdastjóri Hugarafls.
Auður Axelsdóttir er framkvæmdastjóri Hugarafls. mbl.is/Hallur Már
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert