„Maður er kominn á ákveðinn draumastað“

Róbert Ragnar Spanó tekur við embætti forseta Mannréttindadómstóls Evrópu 18. …
Róbert Ragnar Spanó tekur við embætti forseta Mannréttindadómstóls Evrópu 18. maí nk. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er náttúrulega bæði gríðarlega mikill persónulegur heiður fyrir mig og einnig fyrir okkur Íslendinga. Íslendingur hefur aldrei gegnt embætti forseta Mannréttindadómstóls Evrópu og raunar heldur ekki neinn frá Norðurlöndunum frá því að þessi dómstóll tók til starfa í núverandi mynd,“ segir Róbert Ragnar Spanó, nýkjörinn forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, í samtali við mbl.is.

Róbert, sem hefur starfað sem dómari við dómstólinn í tæp sjö ár, var kjörinn varaforseti í apríl í fyrra. Þá var Grikkinn Lin­os-Al­ex­andre Sicilianos kjörinn forseti en hans níu ára kjörtímabili er að ljúka og því þurfti að kjósa að nýju.

„Dómstóllinn er mjög stór stofnun og þar starfa tæplega 700 manns svo að það er mikið verkefni framundan. Forsetinn stýrir öllu þessu starfi auk þess að vera málsvari dómstólsins út á við gagnvart aðildarríkjum og ráðherranefnd Evrópuráðsins þannig að starfið er mjög umfangsmikið,“ bætir Róbert við.

Verður forseti yfirdeildar og stýrir stjórnun dómstólsins

Róbert tekur við embætti forseta dómstólsins 18. maí  og hans forsetatímabili lýkur í nóvember árið 2022. Þegar hann tekur við þá verður ákveðin breyting á hans störfum sem dómari. Hann verður þá forseti yfirdeildar dómstólsins og mun stýra henni auk þess að dæma áfram í öllum íslenskum málum eins og reglur dómstólsins kveða á um. En forseti dómstólsins dæmir ekki í eða tekur ákvarðanir í smærri deildum, það er sjö manna og þriggja manna deildum dómstólsins, og mun hann því hætta afskiptum af slíkum málum.

„Helmingurinn af mínu starfi verður bein stjórnun. Stjórnun og málsvörn gagnvart ráðherranefndinni og síðan er mikið um að hann þurfi að heimsækja aðildarríkin – hann er nokkurs konar sendiherra dómstólsins út á við,“ útskýrir hann.

Ástandið mun hafa áhrif á mannréttindavernd í Evrópu

Spurður hvort að embætti forseta sé mjög fastmótað eða hvort að hann muni geta komið inn með sínar áherslur þá tekur hann fram að kjarninn í starfi dómstóla breytist lítið þó að hver forseti hafi ákveðna sýn. Það liggi þó augum uppi að hans hlutverk verði að leiða dómstólinn á komandi tímum sem verða erfiðir af tveimur ástæðum.

„Það er í fyrsta lagi sú farsótt sem gengur yfir heiminn. Hún hefur auðvitað áhrif á líf fólks og mannréttindi og það mun hafa bein áhrif á störf dómstólsins. Í öðru lagi er staðan sú að í Evrópu eru miklar hræringar sem hafa átt sér stað núna á síðustu árum og mánuðum sem hafa haft áhrif á mannréttindavernd í Evrópu. Þannig að ég held það sé ljóst að mitt forsetatímabil verði gríðarlega erfitt tímabil og mikið sem þarf að huga að og auðvitað munu þá mínar áherslur skipta máli.“

Hann bætir því við að það eigi eftir að koma í ljós hvort að heimsfaraldurinn muni veikja stöðu mannréttinda í Evrópu en það sé hætt við því að þegar opinbert vald sé notað í miklum mæli til að bregðast við þeirri hættu sem augljóslega fylgir farsóttinni þá sé hætta á því að stjórnvöld gangi of langt.

Gagnrýni á dómara er hluti af starfinu

Mannréttindadómstóllinn hefur legið undir gagnrýni hér á landi frá þeim sem voru ósammála niðurstöðu hans í Landsréttarmálinu þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um réttinn til réttlátar málsmeðferðar. Spurður hvort að hann taki slíka gagnrýni inn á sig neitar Róbert því.

„Dómarar verða að sæta gagnrýni og ég tek enga gagnrýni persónulega, hún er hluti af því starfi sem ég hef ákveðið að sinna. Það er hins vegar mikilvægt með gagnrýni á dómstóla, sem og aðrar opinberar stofnanir, að hún sé byggð á rökum og sett fram með málefnalegum hætti.“

Að lokum er hann spurður hvort að hann, fyrst sem fræðimaður á sviði mannréttinda og síðar dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, geti komist mikið lengra en að vera kjörinn forseti dómstólsins.

„Mannréttindadómstóll Evrópu er ein fremsta alþjóðastofnun í heiminum og hún er örugglega fremsti alþjóðadómstóll á sviði mannréttinda í heiminum, þannig að ég held að það verði ekki farið lengra. Maður er kominn á ákveðinn draumastað varðandi fagið sitt,“ segir Róbert að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert