Ferðamenn í sóttkví við komuna til landsins

Allir sem koma hingað til lands þurfa að fara í …
Allir sem koma hingað til lands þurfa að fara í sóttkví frá og með föstudeginum, líka ferðamenn. mbl.is/Eggert

Öllum verður skylt að fara í 14 daga sóttkví við komuna til landsins frá og með föstudeginum. Heilbrigðisráðherra hefur í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis undirritað reglugerð um breytingar þess efnis, og gildir hún að óbreyttu til 15. maí.

Hingað til hefur einungis Íslendingum og öðrum búsettum hér á landi verið gert að fara í sóttkví við komuna til landsins, en frá og með föstudegi mun reglan því einnig gilda um þá fáu ferðamenn sem koma hingað til lands um þessar mundir. Reglan tekur til allra sem ferðast til landsins frá landi sem sóttvarnalæknir skilgreinir sem hááhættusvæði, en sem stendur eru öll lönd heims á þeim lista.

Til að framfylgja breyttum reglum um sóttkví þarf að taka upp tímabundið landamæraeftirlit á innri landamærum Schengen-svæðisins á Íslandi. Er það í fyrsta sinn sem slíkt er gert hér á landi frá því Ísland gerðist aðili að Schengen-samstarfinu árið 2001.

Gerð verður krafa til þeirra sem flytja farþega til landsins að þeir útfylli svokallaða heilsufarsskýrslu (e. Public Health Passenger Locator) eða sambærilegt form og munu farþegar þurfa að framvísa því við landamæraeftirlit. Með því er gert að skilyrði við komu fólks til landsins að fyrir liggi allar nauðsynlegar upplýsingar um hvar viðkomandi muni dvelja í sóttkví og hvernig henni verður háttað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert