Sveinn Andri fær að áfrýja til Hæstaréttar

Sveinn Andri Sveinsson.
Sveinn Andri Sveinsson. mbl.is/Eggert

Hæstiréttur hefur samþykkt málskotsbeiðni þrotabús EK1923, þar sem Sveinn Andri Sveinsson er skiptastjóri, sem fær að áfrýja dómi Landsréttar í máli Sjöstjörnunnar gegn þrotabúinu sem féll 6. mars. Þar beið þrotabúið lægri hlut eftir að Landsréttur hafði snúið við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

Í héraði hafði Sjöstjarn­an, fé­lag at­hafn­ar­manns­ins Skúla Gunn­ars Sig­fús­son­ar, verið dæmt til að greiða þrota­bú­inu bæði 223 og 21 millj­ón, auk vaxta, sam­tals yfir 400 millj­ón­ir, en Lands­rétt­ur taldi aðeins að greiða ætti lægri upp­hæðina. Var sömu­leiðis felld út kyrr­setn­ing á eign­um sem höfðu tengst greiðslu hærri upp­hæðar­inn­ar.

Niðurstaðan sé bersýnilega röng

Í málskotsbeiðninni byggir Sveinn Andri á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem í því reyni á samspil kaupsamnings um fasteign og skiptingaráætlun um sömu fasteign milil sömu aðila. Hann telur að niðurstaða Landsréttar feli í sér að endurtekin ráðstöfun fasteignar sé heimil með skiptingaráætlun og unnt sé að breyta kaupverði og skilmálum við yfirfærslu eignarréttar að fasteignum án þess að það komi fram í þinglýsingarbókum og að gætt sé réttar þinglýsts forkaupsréttarhafa. Sé því um að ræða niðurstöðu sem raski réttarstöðu grandlausra kröfuhafa og forkaupsréttarhafa, auk þess sem hún breyti réttarstöðu þeirra aðila sem láni gerðarþolum tryggingu vegna kyrrsetningar, löggeymslu eða fjárnáms. Niðurstaðan sé því jafnframt bersýnilega röng. 

Þá hafi málsmeðferð fyrir Landsrétti verið stórlega ábótavant þar sem niðurstaða réttarins um að sýkna Sjöstjörnuna af þrautavarakröfu þrotabúsins hafi verið byggð á málsástæðu sem ekki hafi verið haldið fram af hálfu gagnaðila og varði það ómerkingu dómsins.

Loks varði málið sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni kröfuhafa þrotabúsins. 

Skúli Gunnar Sigfússon og Sveinn Andri Sveinsson hafa tekist hart …
Skúli Gunnar Sigfússon og Sveinn Andri Sveinsson hafa tekist hart á í tengslum við uppgjör á þrotabúi EK1923. Samsett mynd

Vill að samningnum verði rift

Fram kemur á vef Hæstaréttar að málið lúti þríþættri kröfu þrotabús EK1923 vegna ráðstöfunar tilgreindrar fasteignar sem var í eigu EK1923 ehf. til Sjöstjörnunnar með kaupsamningi 29. desember 2013. Þrotabúið krefst aðallega riftunar samningsins á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti o.fl. en til vara riftunar á þeirri ráðstöfun á eigninni til Sjöstjörnunnar sem gerð var með skiptingaráætlun sömu aðila 30. mars 2014 og samþykkt á hluthafafundum félaganna 9. og 12. september sama ár. Til þrautavara krefst þrotabúið þess að kaupsamningurinn verði efndur samkvæmt efni sínu og gagnaðila gert að greiða sér 222.870.393 krónur.

Í öðru lagi lýtur málið að kröfu leyfisbeiðanda um riftun á greiðslu skuldar til gagnaðila að fjárhæð 21.316.582 krónur 15. mars 2016 og endurgreiðslu hennar, aðallega á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti.

Í þriðja lagi krefst þrotabúið þess að staðfest verði kyrrsetning sem fór fram 19. júlí 2017 í fjórum tilgreindum fasteignum í eigu gagnaðila og fyrirsvarsmanns hans. 

Dómur í málinu hafi verulegt almennt gildi

Hæstiréttur segir, að virtum gögnum málsins verði að líta svo á að dómur í málinu myndi hafa verulegt almennt gildi að því er varði þær kröfur leyfisbeiðanda sem lúti að ráðstöfun umræddrar fasteignar til gagnaðila og um skilyrði og framkvæmd kyrrsetningar. Er beiðnin því tekin til greina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert